Skip to main content

Tveir af tíu verstu hviðustöðum landsins á Austurlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. maí 2022 10:45Uppfært 31. maí 2022 14:24

Tveir af tíu verstu vindhviðustöðum á vegum landsins finnast á Austurlandi samkvæmt nýlegri úttekt þar að lútandi: Vatnsskarð eystra og Hamarsfjörður.

Vegagerðin hefur um árabil kortlagt helstu hviðustaði á vegum landsins og því verki framhaldið í vetur þegar Veðurvaktin fékk styrk til að útbúa svokallaða vindhviðu kortaþekju en markmiðið með þeirri vinnu að útbúa hnitsett kerfi upplýsinga um varasama hviðustaði fyrir vegfarendur. Til grundvallar voru notaðar veðurmælingar frá 2011 til 2020 og þröskuldurinn miðaðist við 35 metra vindhraða á sekúndu. Þá var jafnframt tekið tillit til umferðarslysa og sérstaklega litið til staða þar sem þekkt væri að ökutæki eða vagnar hefðu lent í vandræðum vegna vinds á þessu tímabili. Einir 86 þekktir hviðustaðir voru skoðaðir.

Hættulegasti staðurinn í vegakerfi landsins reynist vera Hvammur undir Eyjafjöllum og þar á eftir Hafnarfjall við Borgarfjörð. Þriðji staðurinn er vegur 94 um Vatnsskarð á á leiðinni til og frá Borgarfirði eystra. Um hann segir:

Á Vatnsskarði eystra er einn alræmdasti hviðustaður landsins. Vindurinn er þvingaður um skarðið ýmist úr ANA eða úr VNV. ANA-vindáttin er algengari og mun skeinuhættari. Hviðurnar fylgja stormum og eru algengari að vetrarlagi. Kemur þó fyrir á sumrin, einkum V-áttin.

Seinni staðurinn austanlands sem þykir skeinuhættur í hviðum er íbúum líklega vel kunnugur en það er þjóðvegur 1 um Hamarsfjörð við Djúpavog. Um hann segir:

Um 4 km kafli frá botni og um norðanverðan Hamarsfjörð. Á honum mest öllum verður snarvitlaust veður í N- og NV-átt og bílar hafa oft fokið út af veginum. Mikil fjallaköst og koma hnútarnir ekki síður af hafi eða úr suðvestri. Þarna mælast einna hæstu gildi vindhviða við vegi landsins.

Í tilteknum áttum verða vindhviður stórhættulegar í Vatnsskarði eystra. Aðallega að vetri til en hættulegar aðstæður geta líka skapast að sumarlagi. Mynd GG