Tveir kynsegin/annað einstaklingar á Austurlandi
Tveir einstaklingar á Austurlandi eru nú skráðir sem kynsegin/annað í þjóðskrá Hagstofu Íslands en eru 90 talsins í landinu öllu.
Kynsegin/annað einstaklingar er fólk sem skilgreinir sig utan hins hefðbundna kynjakerfis en þar getur meðal annars verið um að ræða transfólk. Töluverð vakning hefur orðið bæði hérlendis og erlendis að koma til móts við þennan hóp hvað varðar aðgengi að til dæmis salernum og búningsklefum en því fólki getur liðið illa ef öll aðstaða á vinnustöðum eða opinberum stöðum á borð við sundlaugar og íþróttahúsum miðast aðeins við hin hefðbundnu tvö kyn.
Þegar er vakning í þessa átt á Austurlandi en í vetur kom til að mynda fram krafa frá nemendum í Verkmenntaskóla Austurlands um að salerni í skólanum tækju mið af fleiri kynjum en körlum og konum. Vel var tekið í þær óskir af hálfu Fjarðabyggðar og málið þar í umfjöllun.
Mynd: Kynlaus salernisaðstaða er víða orðin að veruleika bæði hérlendis og erlendis.
Athugasemd: Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar var talað um kynlausa einstaklinga. Hið rétta er að formlega skráningin er „kynsegin/annað“ og hefur fréttinni verið breytt í samræmi við það.