Tveir nýliðar sækjast eftir sæti í stjórn Síldarvinnslunnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 17. apr 2023 14:12 • Uppfært 17. apr 2023 14:13
Sex framboð hafa borist til fimm sæta í aðalstjórn Síldarvinnslunnar. Kosið verður milli frambjóðenda á aðalfundi sem haldinn verður í Neskaupstað á morgun.
Björk Þórarinsdóttir býður ekki fram til áframhaldandi stjórnarsetu en í staðinn bjóða sig fram Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness frá 2009-2022 og Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Marine Connagen. Báðar eiga hlutabréf í Síldarvinnslunni í eigin nafni.
Fjórir stjórnarmenn bjóða sig fram til áframhaldandi setu. Anna Guðmundsdóttir, fjármálastjóri Gjögurs, hefur verið í stjórninni í áratug, Baldur Már Helgason sviðsstjóri hjá Reginn kom nýr inn 2021, Guðmundur R. Gíslason, framkvæmdastjóri SÚN tók fyrst sæti 2016 og loks hefur stjórnarformaðurinn Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, setið frá 2003.
Anna Bryndís Baldvins McClure, lögfræðingur Samherja og Ingi Jóhann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gjögurs, bjóða sig fram til sætin tvo í varastjórn.
Á fundinum verður farið yfir viðburðaríkt ár Síldarvinnslunnar sem keypti þá bæði Vísi og þriðjungshlut í fiskeldisfyrirtækinu Arctic Fish. Samkvæmt nýbirtum ársreikningi félagsins voru rekstrartekjur þess 42,6 milljarðar króna og hagnaðurinn tæpir 10,4 milljarðar. Lagt er til að 3,5 milljarðar verði greiddir í arð. Fyrir fundinum liggur einnig tillaga um að Síldarvinnslan fái heimild til að kaupa í sjálfri sér.
Fundinn átti upphaflega að fara fram 30. mars en var frestað þegar snjóflóðin féllu í Neskaupstað mánudaginn 27. mars.