Skip to main content

Tveir teknir fyrir slagsmál seinustu nótt

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. des 2010 21:21Uppfært 08. jan 2016 19:22

logreglumerki.jpgTalsverður erill var hjá lögreglunni á Egilsstöðum seinustu nótt vegna slagsmála við dansleik þar. Björgunarsveitir voru kallaðar út til föstum ferðalöngum á heiðum um jólin. Talsverður erill var einnig hjá lögreglunni á Eskifirði seinustu nótt.

 

Hjalti Bergmar Axelsson, varðstjóri, segir að í nógu hafi verið að snúast vegna slagsmála og óláta við ballið. Tveir voru handteknir og fluttir af vettvangi. Engar kærur hafa enn verið lagðar fram vegna slagsmálanna. Hann áætlar að tæplega 300 manns hafi sótt ballið, sem sé talsverður fjöldi.

Bifreið fór út af á Háreksstaðaleið í gær í hálku og vindi. Björgunarsveitir aðstoðuðu ferðalanga sem voru á leið yfir Fjarðarheiði á jóladag og höfðu fest bíl sinn í snjó. Þá var björgunarfólk kallað út á Borgarfirði þar sem þakplötur voru að fjúka í óveðrinu.

Lögreglan rannsakar enn orsök elds í ruslageymslu Útgarðar 7 á Egilsstöðum í seinustu viku. Hjalti segir ekkert hafa komið fram sem varpað geti ljósi á upptökin.

Jónas Wilhelmsson, lögreglustjóri á Eskifirði, segir helgina hafa verið ágæta ef frá er talið óveðrið. Allt hafi þó gengið snurðulaust fyrir sig. Ein líkamsárás var á Café Kósý á Reyðarfirði, skemmdarverk á Höfn og talsverður erill hjá lögreglu í umdæminu aðfaranótt mánudags.