Tvívíði kisi Austfirðinga byrjar vel í sveitakeppni Íslands í bridds
Það ekki ýkja algengt að Austurland eigi fulltrúa í sveitakeppni Íslands í bridds en það er raunin í keppninni þetta árið sem hófst í gær. Austfirska liðið Tvívíði kisi situr í sjötta sætinu af tólf alls eftir fyrsta keppnisdag.
Fyrsti keppnisdagur sveitakeppni Íslands hófst í gær og stendur áfram yfir helgina en mótið fer fram í Mosfellsbæ að þessu sinni.
Fyrir hönd Austurlands keppa Austurlandsmeistararnir í teymi Tvívíða kisa en þeir kumpánar stóðu sig best allra á Austurlandsmótinu sem haldið var á Eiðum fyrir skömmu. Það lið samanstendur af þeim Pálma og Stefáni Kristmannsonum, Þorsteini Bergssyni og Magnúsi Ágrímssyni.
Önnur umferð hófst nú eftir hádegið svo úrslit þar eru ekki ljós þegar þetta er skrifað en áfram verður spilað inn í helgina áður en fjögur bestu liðin sitja eftir í keppninni á sunnudaginn kemur.
Á vef Bridgesambands Íslands er streymt frá einni viðureign hvern dag mótsins og þar má jafnframt fylgjast með úrslitunum hvern dag þegar þau liggja fyrir. Þann vef má finna hér.
Mynd af þremur sigursælustu liðunum á Austurlandsmótinu í bridds sem fram fór fyrir skömmu. Hluti þeirra keppir nú í sveitakeppni Íslands fyrir sunnan. Mynd Aðsend