Tvö framboð vilja byrja kjörtímabilið á stjórnsýslu- og rekstrarúttekt
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. maí 2022 16:37 • Uppfært 02. maí 2022 16:40
Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstrihreyfingin – grænt framboð telja þarf að ráðast í úttekt á stjórnsýslu Fjarðabyggðar í upphafi næsta kjörtímabils. Fjarðalistinn og Framsóknarflokkur, sem verið hafa í meirihluta síðustu fjögur ár leggja áherslu á árangur þeirrar vinnu sem unnin hefur verið.
Þetta kom fram í svörum framboðanna við fyrirspurnum Breiðdælinga á opnum framboðsfundi þar í gær. Heimafólk spurði þar út í starfsemi og stjórnsýslu Fjarðabyggðar.
Íbúarnir sögðust upplifa að þeir væru á jaðrinum og lýstu stirðlegum samskiptum við stjórnsýsluna. Að eini starfsmaður áhaldahússins þar væri yfirleitt sendur á aðra staði þannig óvíst væri hver ætti að óska eftir snjómokstri þegar þess þyrfti.
Þá virtist sem eftirlit skorti með framkvæmdum á vegum sveitarfélagsins þannig þær yrðu allt of dýrar. Einn fundargesta sagði farið með fjármuni eins og matador-peninga. Sami gestir sagði einnig að Breiðdælingar hefðu ekki áhyggjur af Suðurfjarðavegi, einfaldlega þyrfti vegagerð á Breiðdalsvík þannig íbúar kæmust á milli húsa án þess að detta ofan í holur.
Snákaspil að koma málum áfram
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og VG svöruðu fyrirspurnum gesta um að þeir vildu ráðast í úttekt á bæjarskrifstofunum í upphafi kjörtímabilsins. Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, sagði tilganginn að skoða hvernig mætti hagræða í rekstri og einfalda ákvarðanatöku.
Frambjóðendur flokksins höfðu áður gagnrýnt stjórnsýsluna í framsöguræðum sínum. „Af hverju er það þannig, að það virðist sem náttúrulögmál að stjórnsýsla og embættismannakerfi sveitarfélagsins sé flókið og óaðgengilegt, hinum almenna íbúa,“ sagði Kristinn Þór Jónasson, annar maður á listanum og lýsti upplifun sinni af kerfinu sem forsvarsmaður félagasamtaka á Eskifirði.
„Þeir sem leggja á sig sjálfboðastarf fyrir samfélagið sitt og almennir íbúar eru sífellt að rekast á veggi í stjórnsýslunni, svör berast seint og ákvarðanafælnin er alltumlykjandi. Að reyna að koma málum áfram er eins og að spila snákaspil. Þú heldur að þú sért að ná í mark en allt í einu ertu kominn á upphafsreit.“
Opið bókhald
Anna Berg Samúelsdóttir, sem skipar annað sætið á lista VG, sagðist telja upplifun Breiðdælinga um erfitt aðgengi að stjórnsýslunni í Fjarðabyggð á rökum reista. Brýnt og hollt væri að endurskoða skipurit Fjaraðabyggð með stjórnsýsluúttekt. Ekki væri þar með verið að verið að draga saman seglin en vel væri hægt að gera hlutina upp á nýtt.
Frambjóðendur flokksins töluðu fyrir því að Fjarðabyggð tæki upp svokallað opið bókhald. Slíkt yki gagnsæi sveitarfélagsins og þegar íbúar gætu borið saman verkáætlanir við rauntölur í framkvæmdum og eins séð hvar verið væri að vinna væri hægt að sannreyna fullyrðingar um hvort vinnunni væri misskipt milli byggðarlaga. Sjálfstæðisflokkurinn talaði einnig fyrir opnu bókhaldi.
Stolt af fjölskyldusviðinu
Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokks, sagði vont ef íbúar upplifðu að enginn starfsmaður væri til staðar. Hann bætti við að ekki væri verið að taka fólk úr verkum á Breiðdalsvík auk þess sem aðrir kæmu þangað til starfa þegar þyrfti.
Jón Björn sagði engan vilja fara illa með fé. Hins vegar gerðist það af og til að yfirsýnin tapaðist. Skref til að bæta úr því hafi verið stigið í byrjun árs þegar starfsmanni af fjármálasviði var falið að fara yfir innkaup sveitarfélagsins. Hann bætti við að þegar mikið væri að gera hjá verktökum væri erfiðra að fá þá til starfa sem aftur ylli því að verk tefðust.
Hjördís Helga Seljan frá Fjarðalistanum benti á að skipuritið væri ekki meitlað í stein heldur aðlagað aðstæðum og stefnu hverrar bæjarstjórnar. Á yfirstandandi kjörtímabili hefðu verið gerðar miklar breytingar á fjölskyldu- og fræðslusviði sem hefðu tekist vel. „Ég er stolt af hve öflugt það svið er orðið.“
Þörf á sneggri upplýsingagjöf
Breiðdælingar spurðu einnig út í upplýsingagjöf sveitarfélagsins. Síðasta haust þurfti þar að sjóða vatn vegna mengunar. Dæmi voru þó um að einhverjir dagar liðu áður en fjöldi íbúa vissi um mengunina. Virðist það hafa skapað vantraust þannig að sumir þeirra sjóða enn vatn í öryggisskyni.
Svör flestra frambjóðenda gengu út á SMS-sendingar. Ragnar talaði um gerð smáforrits fyrir sveitarfélagsins sem nýst gæti til að senda SMS-boð. Anna Berg vísaði í lausn frá Loftmyndum sem náð gæti í alla farsíma á tilteknu svæði. Vissulega kostaði lausnin en vandræði kostuðu líka sitt. Undir það tók Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans. Jón Björn sagði að SMS-boð hefðu verið skoðuð með Neyðarlínunni en þar þyrfti að fara betur yfir persónuverndarmál.
Hann bætti við að Fjarðabyggð væri að kaupa geislunarbúnað til að koma upp í vatnsveitum allra byggðarkjarna. Á Breiðdalsvík á búnaðurinn að vera kominn upp í haust.