Tvö útköll björgunarsveita austanlands í nótt

Áhöfn björgunarbátsins Hafbjargar í Neskaupstað kom skipverja á litlum fiskibát til aðstoðar um fimm leytið í morgun en sá hafði slasast illa á fæti og var ófær um að sigla bátnum til hafnar. Var báturinn þá um sextán sjómílur austur af Norðfjarðarhorni. Þyrla Landhelgisgæslunnar var líka kölluð til og þurfti að hífa manninn í börum um borð í þyrluna af fiskibátnum.

Gekk það allt að óskum að sögn upplýsingarfulltrúa Slysavarnarfélagsins Landsbjargar og hélt þyrlan áleiðis til Reykjavíkur með manninn með eldsneytisstoppi á Egilsstaðaflugvelli upp úr klukkan sjö í morgun. Bátnum var svo komið í höfn í kjölfarið.

Fyrr um nóttina, um tvö leytið, barst björgunarsveitinni Báru á Djúpavogi einnig útkall vegna fiskibáts. Sá var stjórnlaus eftir stýrisbilun rétt austur af Papey en vel gekk að koma taug í bátinn þegar björgunarsveitin komst á staðinn og allir komnir að bryggju um hálf fimm.

Þetta reyndist annað útkall Báru á skömmum tíma því síðdegis í gær þurftu liðsmenn björgunarsveitarinnar að koma slösuðum hjólreiðarmanni til hjálpar en sá handleggsbrotnaði á ferð inni í Hamarsdal. Gekk vel að koma viðkomandi í sjúkrabíl og til aðhlynningar.

Þyrlan að hífa manninn um borð í morgun en þaðan var flogið með hann á sjúkrahús í Reykjavík. Mynd Landsbjörg

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.