Tvö útköll vegna göngufólks á Seyðisfirði

Björgunarsveitir hafa síðustu daga tvisvar verið kallaðar út á Seyðisfirði vegna göngufólks í vandræðum. Á Borgarfirði var björgunarsveitin fengin til að bjarga því að bíll ylti á leiðinni úr Húsavík.

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði var upp úr hádegi í gær kölluð út vegna göngumanns sem hafði slasast á fæti við Búðarárfoss. Sjúkrabíll kom einnig frá Egilsstöðum. Aðgerðin gekk hratt og vel.

Fjöldi fólks var á Seyðisfirði í gær. Þrjú skemmtiferðaskip voru í höfn því eitt þeirra hætti við að fara til Djúpavogs vegna veðurs.

Á sunnudag voru björgunarsveitir kallaðar út vegna göngumanns sem taldi sig í sjálfheldu við Vestdalsvatns. Skömmu síðar var útkallið afturkallað því annar gönguhópur var kominn að göngumanninum og gat aðstoðað hann á rétta braut.

Á föstudag var Björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði kölluð út vegna bíls í vanda á leið úr Húsavík. Bíllinn hafði lent út af þröngum veginum og þaðan ofan í for. Hann vó því nánast salt á vegöxlinni.

Þar sem aðrir þjónustuaðilar voru ekki tiltækir fór björgunarsveitin á staðinn til að tryggja að bíllinn færi ekki á hliðina. Björgunarsveitin fékk aðstoð bíleigenda úr nágrenninu til að halda við bílinn meðan nýr björgunarsveitarbíll, sem Sveinungi fékk fullbúinn í fyrra, spilaði bílinn upp á veginn.

Bergvin Snær Andrésson, formaður Sveinunga, segir það hafa gengið vel með að fara varlega því bíllinn hafi verið mjög tæpur á vegöxlinni. Afar þakklátir ferðalangar hafi síðan getað haldið ferð sinni áfram.

Myndir: Björgunarsveitin Sveinungi/Hlynur Sveinsson


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.