Skip to main content

Úboð hafið á smíði Baugs Bjólfs í Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. sep 2023 10:57Uppfært 06. sep 2023 11:00

Formlegt útboð á smíði nýs útsýnispalls á Bæjarbrún í fjallinu Bjólfi sem trónir hátt yfir Seyðisfjarðarbæ hófst í gær en áhugasamir hafa til 3. október til að skila inn tilboðum.

Útsýnispallurinn, sem hlotið hefur nafnið Baugur Bjólfs, mun gefa gestum einstakt útsýni yfir allan bæinn og stóran hluta fjarðarins og fjallahringsins allt í kring. Standa vonir til að staðurinn verði mikið aðdráttarafl til framtíðar.

Útboðið tafðist nokkuð því framkvæma þurfti meiri jarðvegsrannsóknir á staðnum en ráð var gert fyrir í upphafi að sögn Steingríms Jónssonar, verkefnastjóra framkvæmda hjá Múlaþingi.

„Að því gefnu að tilboð berist fyrir útboðslok þá gerum við ráð fyrir að stórum hluta verksins verði lokið næsta sumarið. Útboðið snýst um jarðvinnu, yfirborðsfrágang vegna mannvirkis og á aðkomusvæði, alla uppsteypu pallsins og uppsetningu handriðs.“

Tímarammi verksins er þó mjög sveigjanlegur að sögn Steingríms sem helgast af því að pallurinn stendur afar hátt á snjóþungu svæði.

„Við erum alveg meðvituð um að verkið getur tafist verulega ef veðurfar verður með þeim hætti. Þangað er jafnan ekki fært fyrr en seint í júní og þarna getur byrjað að snjóa strax í september ef svo ber undir. Ef það verður raunin þá gerum við alveg ráð fyrir að verkinu ljúki ekki endanlega fyrr en 2025.“

Gróf kostnaðaráætlun vegna smíðinnar er kringum 180 milljónir króna en sveitarfélagið fékk í vor tæpar 160 milljón króna styrk úr Framkvæmdasjóð ferðamannastaða svo kostnaðarhluti Múlaþings verður rúmar 20 milljónir miðað við áætlanir.