Um fimmtungur farþega fer fram og til baka samdægurs

Um fimmtungur farþega í innanlandsflugi fer fram og til baka samdægurs. Fjölmennasti hópurinn er í burtu lengur en þrjá daga.

Þetta kemur fram í svari Icelandair við fyrirspurn Austurfréttar en flugfélagið flýgur frá Reykjavík til Egilsstaða, Akureyrar og Ísafjarðar.

Í lok júní var byrjað að innheimta bílastæðagjöld við flugvellina á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík. Í Reykjavík eru tvö bílastæði, misnálægt flugvellinum, og er frítt að leggja í 15 mínútur á öðru þeirra en 45 mínútur á hinu.

Á Egilsstöðum og Akureyri er frítt að leggja í 14 tíma. Í fyrstu átti það aðeins að vera í 15 mínútur en var síðan lengt í fimm tíma eftir mótmæli. Eftir enn frekari mótmæli á lokasprettinum, meðal annars áskorun Sigurðar Inga Jóhannssonar fjármála- og efnahagsráðherra um að fólki sem þyrfti að nota læknisþjónustu yrði gert kleift að ferðast fram og aftur samdægurs án þess að borga, var fresturinn lengdur aftur.

Eftir það sagði Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, að hún hefði upplýsingar um að óformlegar mælingar með myndavélunum, sem komið var upp við bílastæðin á Egilsstöðum í vetur, hefðu sýnt að 85% færu fram og til baka samdægurs. Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, var meðal þeirra sem lýstu efasemdum um þær tölur.

Austurfrétt óskaði því eftir staðfestingu á tölunum frá Isavia. Í svari félagsins kemur fram að þar sé ekki haldið sérstaklega utan um ferðalengd farþega. Þar sem myndavélakerfið hafi aðeins verið uppi í skamman tíma sér erfitt að nota upplýsingar úr því með áreiðanlegum hætti um slík atriði.

Isavia vísaði hins vegar á flugfélögin og þar voru til tölur um lengd ferða í innanlandsflugi. Þar kemur fram að stærsti hópurinn, 28%, er að heiman lengur en í þrjá daga. Á móti eru 20% sem fara fram og til baka samdægurs.

Hóparnir þar á milli eru álíka stórir. 18% farþega fljúga til baka daginn eftir, 20% eftir tveggja daga ferð og 14% eru í þrjá daga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.