Um helmingur íbúa Austurlands segir ferðamannafjöldann hæfilegan

Samkvæmt nýlegri Íbúakönnun landshlutanna, þar sem tæplega tólf þúsund íbúar á landsbyggðinni voru spurðir út í fjölmarga hluti varðandi búsetu sína, reynslu af opinberri þjónustu og mörgu öðru, er enn borð fyrir báru austanlands að taka mót fleiri ferðamönnum en verið hefur.

Með vaxandi fjölda erlendra ferðamanna víða á Íslandi, að frátöldum Covid-árunum, síðastliðin tíu ár eða svo hefur færst í aukana óánægja íbúa á stöku stöðum með yfirgnæfanda fjölda ferðafólks á skömmum tíma.

Þar fyrst og fremst átt við þá staði þar sem komum skemmtiferðaskipa hefur fjölgað hratt og mikið en gestafjöldi á slíkum skipum getur hlaupið á nokkrum þúsundum sem allir koma í land á svipuðum tíma. Slíkur fjöldi yfirgnæfir hefðbundið bæjarlífið í byggðakjörnum á borð við Seyðisfjörð eða Djúpavog sem telja aðeins nokkur hundruð manns. Þó verður að halda til haga að nokkur fjöldi fólks á þessum sömu stöðum hefur sitt lifibrauð beinlínis af þjónustu við þessa sömu ferðamenn.

Samkvæmt svörum þeirra Austfirðinga sem þátt tóku í Íbúakönnuninni er um helmingur þeirra sem telja að gott sé orðið í ferðamannafjöldanum.

Íbúar á Héraði og í Norður-Múlasýslu telja rétt rúm 30% svarenda að ferðamannafjöldinn sé annaðhvort heldur of mikill eða alltof mikill. Rétt tæp 50% telja fjöldann nú hæfilegan meðan um 20% segja að vel megi bæta í.

Hlutfall þeirra sem eru á þeirri skoðun að ferðamenn séu of fjölmennir í Fjarðabyggð er mun lægra eða innan við 10% en hér skal hafa hugfast að verulega miklu munar á fjölda skemmtiferðaskipa sem sækja Múlaþing annars vegar og Fjarðabyggð hins vegar ár hvert. Þó telja rúmlega 50% íbúa í Fjarðabyggð að ferðamannafjöldinn sé þegar orðinn hæfilegur meðan rétt tæplega 40% þeirra sem svöruðu segja að betur megi gera og taka mót fleirum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.