Umboðsmaður Alþingis átelur Vopnafjarðarhrepp fyrir vinnulag við ráðningu aðstoðarskólastjóra
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. ágú 2023 13:20 • Uppfært 15. ágú 2023 13:22
Umboðsmaður Alþingis hefur ráðlagt Vopnafjarðarhreppi að leita sátta við umsækjanda um stöðu aðstoðarskólastjóra. Samkomulag vegna málsins var lagt fram í hreppsráði í síðustu viku. Umboðsmaðurinn telur sveitarstjórn hafa brugðist rannsóknaskyldu sinni við ráðninguna í fyrra.
Tveir umsækjendur voru um stöðuna sem auglýst var í júní í fyrra. Í auglýsingu var farið fram á hæfni á borð við kennarapróf og helst framhaldsmenntun, mikla reynslu af kennslu eða stjórnun auk samskiptafærni, skipulagshæfileika og leiðtogafærni.
Sveitarstjórn réði í starfið að fenginni tillögu skólastjóra sem í umsögn sinni taldi einstaklinginn sem var ráðinn hæfari í ljósi meiri reynslu og farsæls samstarfs. Samkvæmt þágildandi lögum átti fræðslunefnd einnig að veita umsögn en hún klofnaði í afstöðu sinni og ákvað að veita ekki umsögn.
Huglæga matinu ábótavant
Sveitarfélagið óskaði einnig eftir að ráðgjafafyrirtæki legði mat á umsækjendurna. Í áliti Umboðsmanns er vísað til svars fyrirtækisins um að það geti aðeins veitt álit út frá fyrirliggjandi gögnum í umsóknum en mælir með viðtölum til að kanna þætti eins og samskiptafærni, skipulagshæfileika og leiðtogagetu. Fyrirtækið mat þó einstaklinginn sem var ráðinn hæfari út frá fyrirliggjandi gögnum út frá reynslu meðan hinn hefði framhaldsmenntun en skorti reynslu.
Þau atriði sem upp á vantar þar eru þau sem Umboðsmaður gerir mestu athugasemdirnar við. Að þau hafi ekki verið könnuð frekar leiði til þess að sveitarstjórnin hafi skort heildstæðan samanburð og þar með ekki uppfyllt rannsóknaskyldu stjórnsýslulaga.
Umsækjandinn sem varð undir óskaði fyrst eftir skriflegum rökstuðningi áður en hann leitaði til Umboðsmanns. Í álitinu kemur fram að tillaga skólastjórans hafi verið stuttorð en síðan verið rökstudd munnlega við kjörna fulltrúa. Skólastjórinn var þó ekki kallaður til sveitarstjórnarfundar né framburður hans skráður. Umboðsmaður gerir athugasemd við ekkert finnist efnislega um hina munnlegu umsögn né hvernig eða hvenær hún var sett fram. Þá voru ekki tekin viðtöl við umsækjendur. Skólastjórinn skrifaði ítarlegri umsögn til sveitarfélagsins eftir að umsækjandinn óskaði rökstuðnings.
Tekið skal fram að samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps var enginn ágreiningur þar um ráðninguna. Í svörum hennar kemur fram að hún hafi talið sig hafa fullnægjandi gögn og lagt traust á tillögu skólastjórans. Þar er þó jafnframt lýst yfir vilja til úrbóta í framtíðinni.
Sveitarstjórn átti að kanna málið betur
Í áliti sínu segir umboðsmaðurinn að enginn vafi sé á að skólastjórinn hafi getað lagt gott mat á umsækjendurna í ljósi samstarfs við báða í gegnum tíðina og haft þekkingu á þeim huglægu hæfniskröfum sem ráðgjafafyrirtækið gat ekki metið. Hins vegar liggi ekkert fyrir í gögnum málsins um þá þætti. Umboðsmaðurinn gerir heldur ekki athugasemdir við að sveitarstjórnin hafi gefið tillögu skólastjórans mikið vægi því skólastjórinn þekki bæði skólastarfið vel og sé að ráða náinn samstarfsmann meðan kjörnir fulltrúar þekki innviðina síður.
Það breyti því ekki að lögin hafi verið þannig að sveitastjórnin bæri endanlega ábyrgð á ráðningunni eða öðrum lykilþáttum í ráðningarferlinu. Aðkoma annarra, til dæmis ráðgjafafyrirtækja, breytir því ekki. Umboðsmaður segir að sveitarstjórnin hafi borið skylda til að kanna hvort tillaga skólastjórans uppfyllti skilyrði. Hún hefði því átt að tryggja að fullnægjandi gögn um heildarsamanburð lægju fyrir og óska þá eftir nýrri tillögu eða frekari rökstuðningi.
Leiðir ekki til ógildingar
Niðurstaða Umboðsmanns er að ágallarnir séu ekki það alvarlegir að ógilda eigi ráðninguna, einkum með tilliti hagsmuna þess einstaklings sem fékk starfið. Því er beint til sveitarfélagsins að rétta hlut þess umsækjanda sem ekki var ráðinn, sem hafi annars þann kost að leita til almennra dómstóla.
Á fundi hreppsráðs Vopnafjarðarhrepps í síðustu viku kemur fram að lagt hafi verið fram til kynningar samkomulag vegna álits Umboðsmanns. Málið hefur verið bókað sem trúnaðarmál á vegum sveitarfélagsins og veitir það því ekki nánari upplýsingar um það.