Umboðsmaður gerir ekki athugasemdir við vinnu ráðuneytis í vanhæfismáli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 31. okt 2023 10:53 • Uppfært 31. okt 2023 12:38
Umboðsmaður Alþingis gerir ekki athugasemdir við meðferð innviðaráðuneytisins á kæru Þrastar Jónssonar, sveitarstjórnarfulltrúa Miðflokksins, vegna ákvörðunar sveitarstjórnar og byggðaráðs Múlaþings um hæfi hans í umfjöllun um legu vegar frá væntanlegum Fjarðarheiðargöngum.
Þröstur var fyrst talinn vanhæfur af sveitarstjórn sumarið 2022 þar sem bróðir hans og fjölskylda eiga drjúgan hluta þess lands sem fer undir væntanlegan veg frá göngunum við Egilsstaði. Þröstur skaut ákvörðuninni til innviðaráðuneytisins.
Ráðuneytið taldi ekki um að ræða stjórnvaldsákvörðun, sem fellur undir eftirlitsskyldu ráðuneytisins, heldur ákvörðun um meðferð máls. Ráðuneytið taldi hins vegar rétt að fjalla um málið, bæði vegna hagsmuna Þrastar sem kjörins fulltrúa en einnig til að bæta leiðbeiningar um túlkun vanhæfis.
Í áliti ráðuneytisins, sem gefið var út um miðjan janúar, er rakið að hagsmunir bróður Þrastar geri það að verkum að hagsmunir hans teljist töluvert meiri en venjulegra íbúa Múlaþings en samkvæmt vanhæfisreglum ber fulltrúa að víkja við meðferð og afgreiðslu máls þegar hagsmunir hans eða náins venslafólks séu það miklir að vilji fulltrúans geti mótast af því.
Niðurstaða ráðuneytisins var að gera ekki athugasemdir við afgreiðslu sveitarstjórnar Múlaþings og bætti við brýningu til kjörinna fulltrúa um að gæta að hæfi sínu því þátttaka þeirra geti gert ákvarðanir ólögmætar með tilheyrandi tjóni.
Engar athugasemdir við málsmeðferð ráðuneytisins
Þröstur skaut áliti ráðuneytisins til Umboðsmanns Alþingis um miðjan apríl og taldi innviðaráðuneytið hafa vikið sér hjá því að úrskurða um hæfi hans. Umboðsmaður lauk skoðun sinni á málinu með bréfi þann 23. maí. Vegna anna hjá embættinu var bréfið ekki birt fyrr en í þessum mánuði.
Umboðsmaður vísar til vanhæfisreglnanna, meðal annars um að kjörnum fulltrúa beri tafarlaust að vekja athygli á mögulegu vanhæfi sínu við næsta yfirmann. Nefndin kjósi síðan um það og geti fulltrúinn tekið þátt í þeirri atkvæðagreiðslu.
Þá fjallar Umboðsmaður um hvaða ákvarðanir séu kæranlegar til ráðuneytisins og ítrekar að ákvörðun sveitarstjórnar hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun heldur um ákvörðun um meðferð máls. Slíkar ákvarðanir sé ekki hægt að kæra og því séu ekki gerðar athugasemdir við að ráðuneytið hafi vísað málinu frá.
Þá segist Umboðsmaður ekki gera athugasemd þann farveg sem ráðuneytið setti málið í með að taka það til sérstakrar meðferðar á grundvelli heimildar til frumkvæðisathugana.
Umboðsmaður lítur ekki á aðrar kvartanir
Kærubréf Þrastar er ekki birt á vef Umboðsmanns en úr reifun embættisins má lesa að þar hafi verið kvartað undan fleiri atriðum hjá sveitarstjórn eða nefndum Múlaþings. Umboðsmaður segist ekki getað fjallað um þau atriði þar sem þeim hafi ekki verið skotið til innviðaráðuneytisins og embættið taki ekki mál til meðferðar nema önnur úrræði innan stjórnsýslunnar séu fullreynd.
Þröstur hefur áfram í haust gagnrýnt að hann hafi þurft að víkja sæti við meðferð skipulags vegna vega frá Fjarðarheiðargöngum. Hann hefur þar haldið því fram að hvorki ráðuneytið né Umboðsmaður hafi orðið við óskum hans um að úrskurða efnislega um hæfi sitt.