Skip to main content

Umferð aftur eðlileg yfir Jökulsá á Fjöllum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. ágú 2025 13:02Uppfært 29. ágú 2025 13:02

Viðgerðum á brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum er lokið í sumar. Þeim takmörkunum sem verið hafa síðan 18. ágúst hefur þar með verið aflétt.


Í upphaflegri tilkynningu Vegagerðarinnar var gert ráð fyrir að verkið tæki 1-2 vikur. Á meðan því stóð var brúin lokuð yfir daginn og aðeins opnað yfir hana fjórum sinnum frá morgunmat fram að kvöldmat.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir verkið hafa gengið vel og vegfarendur verið skilningsríkir. Eina kvörtunin sem barst var þegar opið var yfir brúna þrátt fyrir auglýsta lokun þegar ekki var hægt að vinna uppi í turnum hennar vegna hvassviðris.

Meira viðhald er þó eftir og horft til þess á næsta ári en nú voru lagfærðir kaplar efst í turnunum.

Ferðaþjónustuaðilar á Austurlandi gagnrýndu að brúin væri lokuð á háannatíma. Vegagerðin útskýrði að það væri ill nauðsyn, vinna yrði verkið að degi til yfir sumarið.