Skip to main content

Umferð hleypt aftur á Öxi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. sep 2025 14:07Uppfært 09. sep 2025 14:08

Vegurinn yfir Öxi var opnaður á ný upp úr hádegi eftir að hafa verið lokað í gærkvöldi vegna vatnavaxta. Vegurinn er almennt í slæmu ásigkomulagi og þess vegna hefur hámarkshraði á honum verið lækkaður.


Veginum var lokað um klukkan 21:30 í gærkvöldi þar sem Yxnagilsá, sem er skammt frá vegamótunum niður í Skriðdal, flæddi yfir veginn.

Að sögn Gauta Árnasonar, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni á Höfn, tók hún efni úr veginum ofan við ræsið. Upp úr klukkan 13 í dag var búið að tryggja aðstæður þar, samhliða því sem vatnið sjatnaði og vegurinn opnaður á ný.

Vegurinn er samt afar holóttur og illa farinn eftir úrkomu og umferð síðustu daga. Þess vegna hefur hámarkshraði þar verið lækkaður niður í 50 km/klst. Að sögn Gauta verður vegurinn heflaður eins fljótt og hægt er, en til þess þarf hann að ná að þorna. Áfram er spáð mikilli rigningu næstu daga.

Leiðin yfir Mjóafjarðarheiði er enn lokuð eftir að vegurinn í Slenjudal fór í sundur. Unnið er að viðgerð. Einnig er lokað inn í Snæfell vegna vatnavaxta og síðasta spölinn inn í Kverkfjöll.

Við Grjótá í Álftafirði er verið að grjótverja veginn eftir að áin fór upp úr farvegi sínum og hóf að éta úr vegfyllingu. Einhverjar skemmdir munu hafa orðið á veginum yfir í Vöðlavík og Viðfjörð.