Umferðartafir til Akureyrar vegna viðhalds á brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. ágú 2025 11:34 • Uppfært 18. ágú 2025 11:36
Viðbúið er að tafir verði á umferð milli Austurlands og Akureyrar næstu 1-2 vikur vegna viðhalds á brúnni yfir Jökulsá á Fjöllum við Grímsstaði. Vegna þessa verður brúin lokuð stóran hluta hvers dags.
Unnið er að viðgerðunum á brúnni frá klukkan 8 að morgni til 19 á kvöldin. Á þeim tíma er umferð hleypt yfir fjórum sinnum á dag. Fyrst frá 9:45-10:15, síðan í hádeginu frá 12-13, aftur frá 14:45-15:15 og loks frá 16:45-17:15.
Brúin er opin utan vinnutímans, frá 19 á kvöldin til 8 á morgnana. Lokanirnar hafa ekki áhrif á neyðarflutninga.
Vinna við brúna hófst í morgun og stendur í 1-2 vikur.
Til þess að komast fram hjá lokunum þarf annað hvort að fara niður í Kelduhverfi, þar sem önnur brú er, eða keyra inn undir jökul og fara yfir brúna sem þar er, sem er ærin fyrirhöfn.