Skip to main content

Umhverfismál og starfsskilyrði listafólks fyrirferðamest í athugasemdum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2022 15:10Uppfært 25. apr 2022 15:36

Átta athugasemdir bárust við tillögu um svæðisskipulag Austurlands áður en frestur til að skila þeim inn rann út í síðustu viku. Ábendingarnar snúa meðal annars að starfumhverfi listafólks, rannsóknum á lífríki, starfsemi safna og menntastefnu.


Vinna við skipulag fyrir allt Austurland hefur staðið yfir á vegum sveitarfélaganna í nokkur ár en var loks tilbúið til kynningar í mars. Það var birt í Samráðsgátt stjórnvalda og veittur mánaðarfrestur fyrir almenning til að skila inn athugasemdum. Hann rann út í síðustu viku. Í athugasemdunum, sem lesa má á samrad.is, kennir ýmissa grasa.

Horft framhjá framhaldsskólum?

Í umsögn Menntaskólans á Egilsstöðum er gerð athugasemd við að framtíðarsýn skólans, sem verið hafi stærsta menntastofnun fjórðungsins í 40 ár, séu lítil skil gerði í skipulaginu. Það leiði til þess að skökk mynd birtist af menntun á svæðinu sem ekki endurspegli fjölbreytni hennar.

Enn fastar er kveðið að orði í athugasemdum Helga Ómars Bragasonar, fyrrverandi skólameistara ME, sem þess hafa verið vandlega gætt að hafa framhaldsskólanna ekki með í ráðum. Hann segir að efla þurfi framhaldsskólastigið á ný eftir vængstýfingu þess með styttingu stúdentsprófs niður í þrjú ár.

Helgi Ómar segir að í ljósi þess að framhaldsskólanir undirbúi nemendur fyrir háskólanám hefði verið eðlilegasta að fela þeim hlutverk háskólaútibús. Ekki sé vænlegt til árangur að hýsa slíkt hjá Austurbrú. Þá bendir hann á að ME hafi haft forustu um þróun fjarnáms.

Þörf á að kortleggja jarðfræðina

Annars gerir Helgi Ómar, sem er jarðeðlisfræðingur að mennt, einkum athugasemdir við umfjöllun um umhverfismál í umsögn sinni. Hann segir að gera þurfi grein fyrir náttúruvá á Austurlandi öllu og mögulega forgangsraða aðgerðum til að draga úr afleiðingum náttúruhamfara.

Hann bendir á að fjallshlíðar á Austurlandi séu almennt á hægu framskriði, sem þýði að við ákveðnar aðstæður geti þær hlaupið snögglega fram. Slíkt geti meðal annars gerst með þiðnun sífrera sem sé víða á Austurlandi og Íslandi. Þó sé staðan sú að engin ríkisstofnun fylgist með sífreranum. Því veltir Helgi Ómar því upp hvort Austfirðingar geti þar náð forustu með samvinnu Náttúrustofu Austurlands og Breiðdalsseturs.

Hann bendir á fleiri eyður í skipulaginu, til dæmis sé ekkert talað um jarðfræði þótt fjölmargar jarðmyndanir á Austurlands hafi hátt verndargildi og hvetur til aukinnar kortlagninga og rannsókna. Það á við um fleira í jörðinni því þörf sé að ná yfir um hvar hreint vatn sé að finna eða nýtanleg jarðefni. Þá sé ekkert fjallað um fráveitumál þótt þau séu eitt mikilvægasta viðfangsefni sveitarstjórna.

Orkuvinnsla stangist á við sjálfbærnina

Í umsögn Landverndar er einnig fjallað um umhverfismál en út frá aðeins öðrum sjónarhornum. Athugasemdir eru settar fram við hugmyndir um orkuvinnslu á svæðinu og dregið í efa að hún samræmist þeirri sjálfbæru nýtingu auðlinda sem lýst er í framtíðarsýn eða hugmyndum að sérstæðar landslagsmyndir hálendisins haldi sér.

Landvernd gagnrýnir einnig að ferðaþjónusta sé ekki talin meðal hornsteina atvinnulífsins og að landshlutinn sem hafnað hafi hálendisþjóðgarði reyni nú að sækjast eftir að fjölga störfum við að gæta þess lands sem ætlað var undir garðinn.

Samtökin hvetja til þess að skerpt verði á aðgerðum eða markmiðum gegn hlutum eins og súrnun sjávar eða um loftgæði í þéttbýli. Þá er sett spurningamerki við að ekki hafi farið fram heildstætt mat á umhverfisáhrifum fiskeldis á Austfjörðum.

Fleiri gera athugasemdir við fiskeldið, meðal annars Kolbrún Halldórsdóttir, formaður Bandalags íslenskra leikstjóra, sem telur það vart í anda sjálfbærrar þróunar að í skipulaginu séu ekki lagðar til breytingar á laxeldi við Austfirði og réttast væri að flytja það í lokaðar kvíar.

Athugasemd hennar, líkt og Bandalags íslenskra listamanna og þriggja menningarstofnana á Austurlandi, kallar annars eftir að kveðið verði fastar að orði um starfsskilyrði listafólks og aðstöðu, um leið og fjórðungnum er hrósað fyrir góðan árangur á þessum sviðum síðustu ár.

Svipaður tónn er í umsögn Félags íslenskra safna- og safnafólks sem telur þörf á meira afgerandi umfjöllun um safnamál. Í sameiginlegri umsögn Tækniminjasafns Austurlands og Minjasafns Austurlands er bent á að ekkert þeirra sex markmiða menningarlífs snúi að safnatengdri starfsemi. Víðar vanti umfjöllun um hana þótt gefið sé til kynna að söfnin þurfi að koma að aðgerðum og ljóst að þau beri þungann af því að varðveita menningararfinn. Söfnin leggja fram tillögur um hvernig bæta megi úr þessu.