Umhverfisskýrsla vindorkuvers á Fljótsdsalsheiði þarf að vera mun ítarlegri
Fyrirtækið Fjarðaorka, sem áformar uppbyggingu allt að 350 megavatta vindorkuvers á fimm svæðum í landi Fljótsdalshrepps, þarf að gera mun skýrar grein fyrir áformum sínum í umhverfismati sínu samkvæmt Skipulagsstofnun en fram kemur í matsáætlun fyrirtækisins sem birt var fyrr í vetur.
Það er meginstef álits stofnunarinnar eftir að hafa yfirfarið matsáætlun Fjarðaorku og tekið tillit til athugasemda fyrirtækja, stofnana, sveitarfélaga og almennings en álit þetta var birt opinberlega fyrr í dag.
Matsáætlun er í grunninn útlistun á hvernig fyrirtækið hyggst haga umhverfismati sínu sem kemur í kjölfarið en eitt og annað vantar inn í þá áætlun að mati Skipulagsstofnunar.
Álit stofnunarinnar er upp á átján síður, og má lesa í þaula hér, en heilt yfir er þörf á yfirgripsmeiri rannsóknum og upplýsingum en Fjarðaorka gefur til kynna að til þurfi í matsáætlun sinni. Þar tekur Skipulagsstofnun undir athugasemdir mikils fjölda aðila sem telja í heildina rúmlega 90 talsins.
Hér að neðan má lesa lykilgagnrýni stofnunarinnar á matsáætlunina í helstu flokkum sem máli skipta:
UMHVERFISÁHRIF
„Mikilvægt er að umhverfismat fyrirhugaðra framkvæmda verði nýtt til að bera saman umhverfisáhrif þeirra valkosta sem til greina koma. Skipulagsstofnun bendir á að í umhverfismatsskýrslu þarf að fjalla um að hvaða leyti mismunandi áfangar skipti máli hvað varðar mismunandi umhverfisáhrif. Einnig telur stofnunin að ástæða gæti verið til að skoða misháar vindmyllur.“
HUGSANLEG STÆKKUN
„Í matsáætlun er fjallað um að til þess að mæta mögulegri aukinni eftirspurn eftir raforku í framtíðinni vegna orkuskipta, almennrar raforkuþarfar eða til framleiðslu rafeldsneytis, verði við hönnun vindorkugarðsins kannað hvort að mögulegt verði að auka uppsett afl hans í 500 MW innan framkvæmdasvæðisins. Skipulagsstofnun bendir á að ef þessi valkostur er raunhæfur þarf í umhverfismatsskýrslu að vera sambærileg umfjöllun um báða valkosti og samanburður á áhrifum þeirra á hina mismunandi umhverfisþætti.“
JÖFNUNARAFL
„Í matsáætlun er mjög takmörkuð umfjöllun um tengingu vindorkuversins við flutningskerfið en hér er um að ræða framkvæmdir sem eru forsenda þess að unnt verði að reka orkuverið. Þrátt fyrir að Landsnet sé framkvæmdaraðili við tengingu þarf í umhverfismatsskýrslu að gera ítarlega grein fyrir þeim framkvæmdum, m.a. spennustigi og þeim möguleikum sem til greina koma varðandi legu og útfærslu og leggja mat á samlegðaráhrif þeirrar framkvæmdar með vindorkuverinu á þá umhverfisþætti sem skoðaðir eru í umhverfismatinu. Fyrir liggur að til þess að geta afhent raforku frá vindorkuverum inn á flutningskerfið þarf að vera til staðar jöfnunarafl. Það er nauðsynlegt til að mæta sveiflum í raforkuvinnslu með vindorku. Fram hefur komið, m.a. á opnum fundi Landsvirkjunar, að jöfnunarafl sé afar takmarkað bæði til skemmri og lengri tíma hjá fyrirtækinu. Ástæða er til að fjalla nánar um þessar takmarkanir í umhverfismatsskýrslu og hvernig þær geta haft áhrif á rekstur vindorkuversins.“
VEGAKERFIÐ
„Skipulagsstofnun bendir á að um er að ræða flutninga með mjög umfangsmikla íhluti um langan veg bæði um fjölfarinn þjóðveg sem og um fáfarnari vegi og ljóst að flutningarnir geta haft áhrif bæði á vegakerfið og á umferð. Í umhverfismatsskýrslu þurfa að koma fram upplýsingar um áætlaðan heildarferðatíma sem það gæti tekið að flytja þá íhluti sem þarf til framkvæmdanna frá Mjóeyrarhöfn að framkvæmdasvæðum vindorkuversins. Fjalla þarf ítarlega um allar breytingar sem kann að þurfa að gera á fyrirliggjandi vegum í ljósi umfangs flutninganna. Og gera þarf grein fyrir og fjalla um ónæði á framkvæmdatíma vegna umferðar sem tengjast fyrirhuguðum framkvæmdum.“
FUGLAR
„Skipulagsstofnun telur að fyrirhugaðar fuglarannsóknir séu að flestu leyti ítarlegar og gerir ekki athugasemdir við þau áform eins og þau eru sett fram í matsáætlun. Stofnunin telur þó að í ljósi staðsetningar fyrirhugaðs vindorkuvers, nálægðar við mikilvæg fuglasvæði, viðkvæmni heiðagæsa fyrir áflugshættu og breytileika í árferði og með hliðsjón af umsögnum Náttúrufræðistofnunar og Náttúrustofu Austurlands þurfi að gera ráð fyrir að horft verði til flugferla GPS merktra heiðagæsa við mat á áflugshættu.“
ÁSÝND
„Gerir Skipulagsstofnun ekki almennt athugasemdir við áform fyrirtækisins við mat og framsetningu á áhrifum fyrirhugaðs vindorkugarðs á landslag og ásýnd. Stofnunin bendir hins vegar á að mat á áhrifum á landslag og ásýnd lands er einn þýðingarmesti þáttur umhverfismats vindorkuvera. Meðal verndarmarkmiða náttúruverndarlaga er að standa vörð um óbyggð víðerni landsins. Óbyggð víðerni eru skilgreind í lögunum sem svæði í óbyggðum af tiltekinni stærð þar sem hægt er að njóta einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja. Þar sem ein helstu umhverfisáhrif vindorkuversins eru sjónræns eðlis er mikilvægt að í umhverfismatsskýrslu komi fram niðurstaða um mat á áhrifum á óbyggð víðerni, þ.m.t. áhrif á upplifunargildi.“
HEILDARSÝN
„Við mat á samlegðaráhrifum í umhverfismatsskýrslu þurfa að koma fram upplýsingar um áætlað umfang annars vegar vindorkuvers að Klausturseli og hins vegar við Lagarfoss og sýna þarf staðsetningu þeirra á korti í samhengi við fyrirhugað vindorkuver í Fljótsdalshreppi. Gera þarf grein fyrir og leggja mat á samlegðaráhrif þessara framkvæmda á hina ýmsu umhverfisþætti, s.s. Landslag og ásýnd, fugla, hreindýr, gróður og vistgerðir. Birta þarf sýnileikakort sem sýnir með hvaða hætti sýnileiki skarast við Klaustursel og vindmyllur við Lagarfoss.“
VINNSLUTÍMI
„Í umhverfismatsskýrslu þarf að gera grein fyrir hvað gert er ráð fyrir að leyfi til vindorkuversins verði veitt til langs tíma. Gera þarf grein fyrir áætluðum endingartíma búnaðar og fjalla ítarlega um endurbætur og endurnýjun ef til þess kemur og síðan hvernig staðið verður að niðurrifi vindorkuversins og förgun eða endurvinnslu vindmyllueininga sem og frágangi svæðisins að rekstrartíma loknum.“
HREINDÝR
„Skipulagsstofnun leggur áherslu á að í umhverfismatsskýrslu komi fram mikilvægi fyrirhugaðra framkvæmdasvæða fyrir hreindýr, lýsing á því hvernig þau nýta svæðið á ólíkum árstímum og að lagt verði mat á möguleg áhrif á hreindýr, bæði á framkvæmda- og rekstrartíma fyrirhugaðs vindorkuvers. Í því sambandi þarf að gera grein m.a. fyrir búsvæðatapi og áhrifum á burðarsvæði, beitarsvæði og farleiðir. Mikilvægt er að ítarlega sé fjallað um möguleg fælingar- og truflunaráhrif og þýðingu þeirra fyrir hreindýr, m.a. með hliðsjón af reynslu af rekstri sambærilegra vindorkuvera erlendis.“
MENGUN
„Í umhverfismatsskýrslu þarf að fjalla um notkun og meðhöndlun á mengunarefnum, möguleg mengunartilvik á framkvæmda-, rekstrar- og niðurrifstíma og leggja mat á hættu á að mengunarefni geti borist í jarðveg, grunn- eða yfirborðsvatn, s.s. Jöklu. Þá þarf í umhverfismatsskýrslu að greina frá losun örplasts vegna slits á spöðum, m.a. efnainnihaldi og áætluðu magni og leggja mat á möguleg áhrif þess á náttúruna.“
Meðfylgjandi mynd sýnir sjónræn áhrif vindorkuversins sem skal reisa skal. Þeirra verður vart langt upp á Vatnajökul og langleiðina í Úthérað. Kort Fjarðaorka