Orkumálinn 2024

Ummæli forstjóra HSA vekja undrun og ólgu í Fjarðabyggð

hsalogo.gifBæjarráð Fjarðabyggðar segir ummæli forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands um fyrrverandi yfirlækni stofnunarinnar í Fjarðabyggð ekki til þess fallin að lægja þær öldur sem risið hafa vegna læknamála í byggðarlaginu. Ráðið beinir því til heilbrigðisráðuneytisins að tryggja varanlega og góða mönnun í heilbrigðisþjónustunni.

 

Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs frá í seinustu viku. Þar segir að enn á ný veki ummæli forstjórans, Einars Rafns Haraldssonar, undrun og ólgu í byggðarlaginu. Í vetur hafi HSA kynnt nýtt skipulag heilsugæslunnar í Fjarðabyggð og lögð áhersla á að leggja til hliðar fyrri skærur og leysa málin innan frá með hagsmuni, velferð og öryggi íbúa að leiðarljósi.

Einar Rafn sagði nýverið í Sjónvarpsfréttum að ekki kæmi til greina að ráða Hannes Sigmarsson, fyrrum yfirlækni, aftur til HSA. Ekkert hefði breyst í hans fari og fór Einar yfir vankanta sem hann sagði hafa verið á fyrri störfum læknisins. Bæjarráðið segir þessi ummæli „stinga mjög í stúf“ við tilmælin sem gefin voru út í vetur.

„Heilbrigðisráðuneytið hefur tilkynnt Fjarðabyggð að ráðuneytið hafi ekki afskipti af ráðningarmálum hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands og þau séu í höndum framkvæmdastjórnar stofnunarinnar. Bæjarráð Fjarðabyggðar vill enn og aftur minna á hversu mikilvægt það er fyrir íbúa að tryggja varanlega og góða mönnun í heilbrigðisþjónustunni í sátt við samfélagið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.