Umræðan um sjávarútveginn væri jákvæðari ef fleiri fyrirtæki væru í félagslegri eigu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. des 2023 15:13 • Uppfært 28. des 2023 15:14
Friðrik Mar Guðmundsson lét í nóvember af störfum sem framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði eftir tíu ára starf. Það hefur verið góður tími, eigið fé félagsins hefur tæplega sexfaldast.
Friðrik er fæddur og uppalinn á Breiðdalsvík, fór síðan í Alþýðuskólann á Eiðum og þaðan áfram í Samvinnuskólann á Bifröst. Eftir útskrift varð hann verslunarstjóri á Akranesi en kom austur og var orðinn kaupfélagsstjóri á Stöðvarfirði aðeins 24 ára gamall.
Árið 1990 varð hann framkvæmdastjóri Tanga á Vopnafirði og leiddi útgerðina næstu tólf árin. Þá fluttist hann suður til Reykjavíkur, varð framkvæmdastjóri Matfugls og síðan ráðgjafi hjá Mjólku-Vogabæ áður en hann tók við Loðnuvinnslunni haustið 2013.
„Þar til ég kom hingað höfðu fyrirtækin sem ég tók við verið að byggja sig upp eftir greiðslustöðvun eða komin í greiðsluþrot. Það var mjög lærdómsríkt. Kaupfélag Stöðfirðinga var í raun gjaldþrota og Tangi næstum gjaldþrota en okkur lánaðist að byggja þau bæði upp. Loðnuvinnslan var fyrsta fyrirtækið sem var það vel statt að ég þurfti ekki að byrja í algjörum björgunaraðgerðum,“ segir hann um ferilinn.
Vinátta forsendan fyrir viðskiptunum við norsku og færeysku skipin
Friðrik var ekki ókunnur Loðnuvinnslunni þegar hann tók við framkvæmdastjórastöðunni. Hann hafði verið stjórnarformaður fyrirtækisins í átta ár og aðeins lengur starfað fyrir félagið við að kaupa afla af norskum og færeyskum skipum. Þessi miklu viðskipti við erlendu skipin eru eitt af aðalsmerkjum Loðnuvinnslunnar og skipta fyrirtækið miklu. Loðnuvinnslan er ekki með mikinn uppsjávarkvóta og gerir aðeins út eitt uppsjávarveiðiskip, Hoffell, en þegar horft er á tölur um veltu og framleiðni stækkar félagið því erlendi aflinn er um 40% af heildarvinnslunni.
„Það eru 26 ár síðan ég hóf viðskipti við þessa útgerðaraðila í Noregi og Færeyjum. Ég byrjaði að byggja þau upp á Vopnafirði. Í raun byggja þau á vinskap sem hefur haldist þennan tíma. Við bjóðum þeim til landsins á hverju ári auk þess sem ég fer og heimsæki þá. Við hugsum vel um áhafnirnar, tryggjum að þær fái bíla ef þær koma í land og förum með þeim út að borða.
Við færum þeim líka tertur með myndum af skipunum. Það hefur orðið til þess að Fáskrúðsfjörður er orðinn þekktur sem „Cake Town“ því myndir af tertunum fara út um allt á samfélagsmiðlum. Við förum líka alltaf um borð í skipin til að heilsa fólkinu.
Fyrirtæki með litlar veiðiheimildir verða að nota öll tiltæk ráð til að ná í afla til að nýta fastafjármunina betur. Það skiptir öllu að verksmiðjan sé í gangi þótt framlegðin af þessum afla sé lægri. Undanfarin sex ár höfum við tekið á móti 250.000 tonnum af afla frá Norðmönnum og Færeyingum. Á sama tíma hefur Hoffellið komið með um 180.000 tonn. Undanfarin tíu ár hafa þessi viðskipti skilað okkur aukinni framlegð.
Þetta byggir samt alltaf á sameiginlegum hagsmunum. Færeyingar þurfa út úr sinni lögsögu til að veiða kolmunna og veiða alla sína loðnu á Íslandsmiðum.
Hraður vöxtur Loðnuvinnslunnar
Á þeim tíu árum sem Friðrik hefur stýrt Loðnuvinnslunni hefur fyrirtækið vaxið mikið. Eigið fé fyrirtækisins hefur nærri sexfaldast, farið úr um 2,9 milljörðum króna í 16,3. Á þessum tíma hefur veltufé frá rekstri verið 19,5 milljarðar og samanlagður hagnaður 14,5 milljarðar.
Friðrik segir að strax haustið 2013 hafi stjórn með framkvæmdastjóra sett sér einföld en skýr markmið. Í grófum dráttum voru þau að nýta betur þá vinnslugetu sem félagið hafði með því að bæta við afla eða kvóta, endurnýja uppsjávarveiðiskipið og tæknivæða bolfiskvinnslu og uppsjávarfrystingu.
„Fyrirtækið hefur alla tíð verið vel rekið en okkur tókst að stækka það. Ég vissi að það bjó yfir meiri afkastagetu en það nýtti auk þess að hafa frábært starfsfólk. Fyrsta verkið var að nýta fastafjármunina betur, keyra eins og mögulegt var.“
Næsta skref var að uppfæra uppsjávarveiðiskipið. Nýtt Hoffell kom til Fáskrúðsfjarðar sumarið 2014. Það reyndist mikið happafley en í fyrrasumar var því skipt út fyrir öllu öflugra skip með sama nafni.
Sandfell og Hafrafell gjörbreyttu rekstrinum
Þar á eftir var komið að því að nýta vinnsluna betur með að ná í meiri kvóta. Til þess keypti Loðnuvinnslan tvo krókaaflamarksbáta, fyrst Sandfellið í byrjun árs 2016 og svo Hafrafell með öðrum eiganda um ári síðar. Þeir tveir bátar hafa verið einstaklega fengsælir og verið í efstu sætunum þegar þeirra líkum er raðað eftir afla ár eftir ár.
„Að auka við kvótann í stóra kerfinu var meira og minna lokað þannig við fórum í minna kerfið til viðbótar. Við vissum ekki hvað við vorum að fara út í en þessir tveir bátar hafa gengið ævintýralega vel og gjörbreytt félaginu. Þeir veiddu á síðasta ári 4.900 tonn. Til samanburðar skilaði Ljósafellið (togari Loðnuvinnslunnar) 5.500 tonnum. Sandfellið hefur fiskað 17.000 tonn síðan það kom til okkar,“ segir Friðrik.
Bátarnir tveir landa mest á Stöðvarfirði, þangað er styttri sigling af þeim miðum sem þeir eru mest á en inn til Fáskrúðsfjarðar. Bátarnir landa reyndar víða en það skiptir einu, nær allur þeirra afli er unninn á Fáskrúðsfirði.
Næsta skref var tæknivæðing frystihússins sem ráðist var í seinni hluta árs 2016. „Við höfum tæknivæðst. Þú verður að uppfæra þig til að lifa samkeppnina af. Við höfum farið úr því að taka 20 tonn í gegnum frystihúsið með 50-60 manns yfir í að taka 40 tonn.“
Friðrik segir Loðnuvinnsluna líka hafa bætt við sig bolfiskheimildum til að jafna út sveiflur sem geta verið miklar í uppsjávarveiðum. „Hér fellur aldrei úr vinnudagur. Það skiptir máli að halda utan um fólkið og að það finni að það sé alltaf örugg vinna fyrir það.“
Uppbyggingin ekki tekin að láni
Aðspurður um forsendur þessara fjárfestinga og vaxtar svarar Friðrik að Loðnuvinnslan hafi alltaf gætt þess að eiga fyrir fjárfestingunum. Þá hafi lánið einnig leikið við félagið með góðum vertíðum á sama tíma og mestu breytingarnar stóðu yfir, til að mynda tvöfaldaðist veltan fljótt.
„Það hefur við gaman að fá tækifæri til að byggja fyrirtækið upp en það hefur líka margt lagst með okkur. Reksturinn er ekki fastur í Excel-skjali því uppsjávarfiskurinn getur verið hverfull en við fengum þarna góðar loðnuvertíðir. Á þessum tíma höfum við fjárfest fyrir um 23 milljarða, þar af keypt veiðiheimildir fyrir um 12 milljarða. Við höfum tekið lán fyrir kvótanum en greitt allt annað út úr rekstrinum.
Sem kaupfélagsstjóri og framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar þarf ég að hugsa um að fara varlega í fjármálunum. Við getum ekki sótt hlutafé ef illa gengur, eins og venjuleg hlutafélög. Vissulega væri hægt að selja hluta kvótans til að sækja reiðufé en það er ekki það sem við viljum gera þegar við erum að byggja félagið upp. Við erum ekki fyrirtæki sem tekur áhættu heldur reynir að fara öruggu leiðina. Lykilatriðið er að halda alltaf fjárhagslegum styrk.“
Það er þó ekki þannig að leiðin hafi alltaf legið örugglega upp á við. „Árið 2015 voru allar geymslur sem við komumst í fullar af loðnumjöli. Mest af mjöli í heiminum er framleitt fyrri hluta ársins en selt og notað seinni hlutann. Þá verður að sýna þolinmæði frekar en að selja í stressi. Í átta af þeim tíu árum sem ég hef verið hér hefur verðið á mjöli hækkað þegar liðið hefur á árið.
Árin 2019 og 20 var engin loðnuvertíð. Loðnuvertíðin 2018 var hins vegar stór. Þá seldum við ekki loðnuhrognin á lágu verði heldur héldum að okkur höndum þannig við vorum einir á markaðinum 2019 og verð á loðnuhrognum hækkuðu verulega. Ég lít samt ekki á það sem áhættu. Þótt loðnan hefði veiðst 2019 þá hefði verðið haldist svipað og áður. Þess vegna biðum við.“
Að ná sem mestu út úr litlu
Eitt af því sem viðskipti við erlendu skipin og betri búnaður hafa skilað Loðnuvinnslunni er meiri framleiðsla á loðnuhrognum. Síðustu tvö ár hefur ekkert íslenskt fyrirtæki framleitt meira af þeim. Stór loðnuvertíð í fyrra skapaði grunninn að besta rekstrarárinu í sögu Loðnuvinnslunnar. „Við höfum náð mjög góðri nýtingu úr hrognum. Við erum með frábært fólk og höfum bætt hrognabúnaðinn á hverju ári. Við erum líka hörð á að kæla loðnuna áður en hún er skorin, á leiðinni af miðunum í land. Það er ekki gert alls staðar.
Við reynum alltaf að gera sem mest úr því sem við höfum. Sum fyrirtæki bræddu 50-60% af makrílaflanum í sumar. Við viljum ekki gera það þótt mjölmarkaðurinn sé góður en manneldismarkaðurinn erfiður, eins og nú. Við höfum flakað meira en aðrir og byggt upp markaði sem við viljum þjóna áfram, þó markaðurinn sé erfiður í augnablikinu.“
Samvinnuformið þýðir að kvótinn verður aldrei seldur frá Fáskrúðsfirði
Rekstrarform Loðnuvinnslunnar er ólíkt því sem tíðkast hjá flestum öðrum sjávarútvegsfyrirtækjum landsins, sem mörg eru í eigu einstaklinga, ákveðinna fjölskyldna eða jafnvel á hlutabréfamarkaði. Þótt útgerðin sjálf sé einkahlutafélag er hún að 83% í eigu KFFB sem er samvinnufélag í eigu Fáskrúðsfirðinga. Félagar eru 355 talsins og skilyrði fyrir inngöngu er að viðkomandi hafi átt lögheimili á Fáskrúðsfirði í að minnsta kosti tvö ár. Allir félagar eiga rétt á að mæta á deildarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt.
„Félagið er félagslega uppbyggt með þeim kostum og göllum sem því fylgir. Við þurfum að ræða málin. Ég tel kostina ótvíræða. Þegar vel gengur verður arðurinn eftir í byggðarfélaginu því Kaupfélagið á 83% í Loðnuvinnslunni. Greitt er í stofnsjóð félagsmanna á hverju ári. Þetta þýðir líka að kvótinn, sem öllu skiptir, verður aldrei seldur úr byggðarlaginu.
Það var sagt um samvinnufélögin, einkum sparisjóðina, að þau væru fé án hirðis. Inn í stjórnir þeirra verður að veljast hæft fólk. Inn í stjórnina mega aldrei blandast einkahagsmunir. Ég held að mönnum hafi lánast það hér mörg undanfarin ár. Ég upplifi mikinn áhuga fólks á fyrirtækinu sem sést á að félagafjöldinn hefur um það bil tvöfaldast þessi tíu ár.
Ég er þeirrar skoðunar að hin mikla umræða um sjávarútveg, sem oft er neikvæð, væri öðruvísi ef fleiri sjávarútvegsfyrirtæki væru í félagslegri eigu. Yfir 90% þeirra eru í einkaeigu, tvö eru orðin almenningshlutafélög og það þriðja verður það innan tíðar, sem ég tel vera jákvætt. Síðan eru tvö samvinnufélög, við og Kaupfélag Skagfirðinga. Mér finnst orðið hagaðilar ekki gott orð en það á samt við því í gegnum samvinnuformið hafa fleiri hag af félaginu en í einkafélagsforminu.“
Kaupfélögin voru stofnuð til að auka velsæld
Umræðan hverfist oft um hvort kvótakerfið hafi lagt fjölda sjávarbyggða í eyði eða lagt grunninn að nauðsynlegri hagræðingu. Friðrik segist ekki geta skorið úr um hver staðan hefði verið í íslenskum sjávarútvegi ef fleiri fyrirtæki hefðu verið í dreifðri eigu, hvort í landinu væru fleiri meðalstór fyrirtæki á fleiri stöðum eða hvort tæknivæðingin hefði verið hægari.
„Það sést að minnsta kosti á Fáskrúðsfirði að samfélagið nýtur ávaxtanna. Við reynum að stækka innan frá og látum byggðarlagið njóta þess, við höfum lagt 300 milljónir til samfélagsmála hér síðustu 10 ár. Við fjárfestum ekki út fyrir Fáskrúðsfjörð og við höfum tæknivæðst mjög. Ég held fyrst og fremst að umræðan væri jákvæðari.“
Hann bendir á að þegar Kaupfélag Fáskrúðsfirðinga hafi verið stofnað 1933 hafi markmiðið verið hagur íbúa svæðisins. „Kaupfélögin voru stofnuð til að auka velsæld. Þetta voru hrikalega erfiðir tímar. Einstaklingar urðu gjaldþrota eftir að hafa skrifað upp á víxla fyrir aðra. Fólkið var að brjótast undan danska kaupmannaveldinu sem keypti afurðirnar eins ódýrt og hægt var en seldi nauðsynjavörur eins dýrt og það gat. Þess vegna var bylting fyrir samfélögin að stofna sín eigin félög sem gerðu hvoru tveggja. Peningar komu ekki inn í landið að ráði fyrr en í stríðinu.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.