Undirbúa hreinsun á sígarettum í Eskifirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. ágú 2023 09:54 • Uppfært 16. ágú 2023 10:00
Fjarðabyggð undirbýr nú hreinsun á sígarettum sem fundust í þúsundavís reknar á land í vík skammt utan við Eskifjörð í gær. Ekkert er vitað um hvaðan sígaretturnar koma.
Sígaretturnar eru í vík neðan við eyðibýlið Högnastaði sem er skammt utan Eskifjarðar. „Við stoppuðum þarna til að tala við komu sem var með dreng í fjöruferð.
Þarna voru sígarettur um alla víkina í þúsundatali. Þær dreifast yfir um 20 metra kafla, svo til alla víkina,“ segir Svanbjörg Pálsdóttir, íbúi á Eskifirði sem kom að menguninni.
Hún segir víkina fallega og vinsæla til útivistar en hún hafi aldrei séð neitt þessu líkt þar áður. Eskfirðingar hafa reynt að geta sér til um uppruna sígarettnanna, hvort þær hafi verið losaðar frá flutningaskipi á verð við Eskifjörð eða hvort um sé að ræða leifar frá smygli.
Svanbjörg segir að engin ummerki um pakkningar séu í fjörunni. Ekkert sjást annað en stubbarnir en þeir virðast ekki beyglaðir en kunna að hafa þanist út í sjónum.
Svanbjörg gerði Fjarðabyggð viðvart um mengunina strax í gær. Þar fengust þær upplýsingar í morgun að verið sé að skoða aðstæður og strax eftir það verði hreinsað. Svæðið er vel aðgengilegt og bjartsýni á að hreinsun gangi fljótt. Þar er enginn grunur um hvaðan sígaretturnar koma. Svanbjörg segist ánægð með sveitarfélagið hafi svarað erindi hennar strax og að svæðið verði hreinsað strax.
Mynd: Svanbjörg Pálsdóttir