Undirbúa jarðhitaleit á Seyðisfirði
Beðið er framkvæmdaleyfis til að hefja jarðhitaborun í hlíðinni austan við bæinn á Seyðisfirði nánast beint upp af fjarvarmaveituhúsi bæjarins. Hugmyndin að bora niður á allt að 200 metra dýpi.
Það er HEF-veitur sem standa að borun þessari sem stefnt er að geti hafist við fyrsta tækifæri. Þar skal freista þess að komast yfir 100 stiga hitastigul sem svo er kallaður en hitastigull er mælieiningin um hitaaukningu með dýpi og er mældur í hitastigum á hvern metra eða kílómetra eftir atvikum. Núverandi borholur í firðinum sýna á milli 90 til 100 stiga hitastigul.
Frekari skref í ferlinu verður að taka þegar niðurstöður borunnarinar liggja fyrir. Mikilvægast er að vatnsmagnið verði nægjanlegt til hagkvæmrar nýtingar. Jafnvel þó hitastigull reynist lægri en vonir standa til má hugsanlega nýta vatnið engu að síður í varmadælukerfi HEF-veitna.
Þegar hefur fengist leyfi landeigandans Múlaþings til að hefja borun en beðið er formlegs framkvæmdaleyfis.
Hlíðin sem um ræðir er beint upp af veituhúsi bæjarins aðeins til hægri frá miðju á meðfylgjandi mynd. Mynd GG