Undirbúa nýtt tjaldsvæði í Neskaupstað
Sveitarfélagið Fjarðabyggð hefur sett í auglýsingu tillögu að nýju tjaldsvæði í Neskaupstað. Tjaldsvæðið mun standa undir Tröllagili á svæði sem skilgreint er sem snjóflóðahættusvæði.Núverandi tjaldsvæði stendur við snjóflóðavarnagarðana undir Drangagili. Flytja þarf það vegna framkvæmda sem eru að hefjast við síðasta hluta snjóflóðavarna fyrir Neskaupstað.
Áætlað er að byggja upp nýtt tjaldsvæði á Strandgötu 62, sem er fyrir innan bæinn. Þar stendur einbýlishús í eigu Fjarðabyggðar, keypt upp vegna þess að það er á hættusvæði. Það hefur undanfarin ár hýst skjalasafn bæjarins. Ákveðið hefur verið að rífa húsið og koma þar upp tjaldsvæði í staðinn.
Tjaldsvæðið á að ná yfir 2,1 hektara. Það skiptist í þrennt. Tvö svæði verða fyrir ferðavagna, annað um 1000 fermetrar fyrir 9 vagna og hið efra 1200 fermetrar fyrir 11 vagna. Efst verður tjaldsvæðið sjálfs, um 800 fermetrar sem á að rúma 10 meðalstór tjöld. Við hlið þess verður leiksvæði. Við innkeyrsluna verður þjónustubygging.
Verið er að ganga frá endanlegri hönnun svæðisins en að henni lokinni verður ráðist í útboð á framkvæmdinni. Frestur til að gera athugasemdir við skipulagið er til 22. ágúst.
Húsið að Strandgötu 62 sem á að víkja fyrir væntanlegu tjaldsvæði.