Skip to main content

Undirbúa nýtt útboð vegna sorphirðu í Múlaþingi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. okt 2023 10:58Uppfært 02. okt 2023 10:59

Vinna við undirbúning útboðs vegna sorphirðu í Múlaþingi næstu árin er á lokastigi en sveitarfélagið gerði fyrir helgi sérstakan skammtímasamning til sex mánaða við núverandi rekstaraðila sorphirðu.

Töluvert hefur gengið á í sorphirðumálum síðustu misseri enda innleiðing svokallaðra hringrásarlaga staðið yfir um töluvert skeið í sveitarfélögum landsins. Íbúar margir og fyrirtæki fengið nasaþef af þeim breytingum með fjölgun tunna við hvert hús og breyttum áherslum á gámasvæðum.

Íslenska gámafélagið (ÍGF) hefur verið í samfloti við Múlaþing og Fljótsdalshéraðs á því breytingaskeiði sem brátt sér fyrir endann á því það aðeins hluti sveitanna sem ekki hafa enn fengið tilskilinn fjölda tunna uppsettar.

Gildandi samningur við ÍGF átti að renna út um liðna helgi en ákveðið var á síðasta fundi umhverfis- og framkvæmdaráðs Múlaþings, aðeins tæpri viku áður en samningurinn rann út, að framlengja hann tímabundið til sex mánaða. Ástæða þess, að sögn Hugrúnar Hjálmarsdóttur, framkvæmda- og umhverfismálastjóra, sú að vinna við næsta útboð sem næði til nokkurra ára sé ekki að fullu lokið. Ráð er fyrir gert að nýr þjónustuaðili taki við sex mánuðum eftir það útboð.

Ánægja með sorphirðu í Múlaþingi hefur verið upp og niður síðustu ár en með langtímaútboði eru líkur á að nýr þjónustuaðili veljist til verksins næstu árin.