Skip to main content

Undirbúningur að nýjum grunnskóla á Seyðisfirði hafinn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 13. apr 2023 09:53Uppfært 13. apr 2023 09:55

Undirbúningur að hönnun og byggingu nýs grunnskóla á Seyðisfirði er hafinn en sérstakur starfshópur sem fylgja á málinu eftir fékk erindisbréf sitt fyrir skömmu.

Hópurinn er skipaður þeim Jónínu Brynjólfsdóttur, Guðnýju Láru Guðrúnardóttur og Margréti Guðjónsdóttur en þeim er ætlað að hanna nýjan grunnskóla eftir nýjustu kröfum og jafnframt gera kostnaðaráætlun fyrir verkið. Hópnum ætlað að skila skýrslu af sér að nítján mánuðum liðnum.

Lengi hafa verið köll eftir nýjum skóla í bænum enda sá sem fyrir er barn síns tíma og samræmist engan veginn kröfum gagnvart skólahúsnæði í nútímanum. Hið reisulega gamla skólahús var byggt árið 1907 og því 116 ára gamalt.

Í langtíma fjárhagsáætlun Múlaþings hefur um tíma verið gert ráð fyrir að bygging nýs grunnskóla hefjist árið 2025 og ljúki starfshópurinn vinnu sinni á tíma gæti það raungerst. Heimastjórn Seyðfirðinga hefur þó sagt þá tímasetningu með öllu óviðunandi enda málið brýnt mjög. Kallaði heimastjórnin eftir hraðari aðgerðum síðast í haust sem leið.