Undirskriftasöfnun hafin gegn breytingum á skólastofnunum í Fjarðabyggð

Yfir 500 manns hafa um helgina skrifað nafn sitt á undirskriftalista þar sem mótmælt er fyrirhuguðum breytingum á fræðslustofnunum Fjarðabyggðar. Þær voru samþykktar á fundi bæjarstjórnar síðasta þriðjudag og urðu til þess að meirihlutinn sprakk.

Texti undirskriftalistans felur í sér áskorun til bæjarstjórnar að draga samþykktina til baka og farið í „alvöru samráð“ við skólasamfélagið. Aðgerðirnar eru sagðar fordæmalausar, ógna menntun og farsæld barna í Fjarðabyggð auk þess að vega að störfum fagfólks innan skólanna. Gert er ráð fyrir að undirskriftasöfnuninni ljúki á fimmtudag.

Í grófum dráttum fela breytingarnar það í sér að grunn-, leik- og tónskólarnir í Fjarðabyggð verða sameinaðir í eina stofnun fyrir hvert skólastig. Stöðugildi aðstoðarskólastjóra og deildarstjóra verða lögð niður en í staðinn koma verkefnastjórar með áþekkt hlutverk og aðstoðarskólastjórarnir áður.

Þá verða ráðnir fagstjórar fyrir hvert skólastig sem eiga að vera skólastjórum, sem verða áfram á hverjum stað í leik- og grunnskólum og skólastofnunum til stuðnings og stefnumótunar. Eins verða ráðnir þrír sérfræðingar til skólaþjónustu Fjarðabyggðar.

Breytingarnar byggðu á tillögum starfshóps um fræðslumál. Þær voru samþykktar með átta atkvæðum gegn einu í bæjarstjórn. Meirihlutinn klofnaði þó í málinu og hefðu breytingarnar ekki verið samþykktar nema minnihlutinn hefði samþykkt þær líka. Á fimmtudagskvöld sleit Framsóknarflokkur meirihlutasamstarfi sínu við Fjarðalistann.
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.