Ungmennaráð Fjarðabyggðar fær sínu fram um breytta sundkennslu
Fyrir tilstuðlan ungmennaráðs Fjarðabyggðar hefur nú verið samþykkt af hálfu fræðslunefndar sveitarfélagsins að tekin verði upp stöðupróf í sundi í upphafi hvers skólaárs fyrir elstu bekki grunnskólanna.
Ungmennaráðið lagði til fyrir nokkru að tekin yrðu upp stöðupróf í sundi fyrir nemendur í 7. til 10. bekk grunnskóla Fjarðabyggðar. Þannig gæfist þeim sem næðu hæfniviðmiðum í sundi strax í upphafi hvers skólaárs tækifæri til að nýta tíma sinn í aðra heilsurækt í staðinn. Þannig mætti slá tvær flugur í einu höggi því með þeim hætti gætu sundkennarar ennfremur sinnt þeim betur sem ekki ná hæfniviðmiðum strax í upphafi.
Fjarðabyggð leitaði álits skólastjórnenda á þessum hugmyndum og var svo vel tekið í að fræðslunefndin hefur þegar falið skólastjórnendum að útfæra slík stöðupróf fyrir haustið. Einu mótbárur kennara voru þær að taka slíkt aðeins upp frá og með 8. bekk meðan sjöundi bekkur lærði sund með hefðbundnum hætti allan veturinn. Þá töldu skólarnir mikilvægt í þessu samhengi að tillit yrði tekið til þess að aðstaða til sundiðkunar sé afar misjöfn eftir byggðakjörnum og taka yrði tillit til þess.
Frá og með haustinu geta þeir sem standast sundpróf úr elstu bekkjum grunnskóla Fjarðabyggðar lagt stund á aðra líkamsrækt í staðinn. Mynd Stefánslaug