Skip to main content

Ungmennaráð Múlaþings varar við of miklum niðurskurði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. jan 2024 13:40Uppfært 15. jan 2024 15:27

Ungmennaráð Múlaþings telja að sveitarstjórn hafi gengið of langt í að skera niður ýmislegt það sem ungmennum í sveitarfélaginu þykir mikilvægt en ungmennaráðið fundaði sérstaklega með sveitarstjórn fyrir skömmu.

Þar komu fram áhyggjur ungmennanna af niðurskurði ýmsum hjá Múlaþingi en ungmennin sögðust sannarlega hafa skilning á að skera þyrfti niður á tímum mikillar verðbólgu eins og verið hefur um töluverða hríð og útlit fyrir að verði viðvarandi frameftir nýju ári.

Ráðið vildi þó eindregið tiltaka þrennt sem ekki mætti skera niður að þeirra mati. Í fyrsta lagi væri alltof fljótt farið í niðurskurð vegna félagsmiðstöðva enda séu sveitarfélög ekki skyld til að halda slíkum rekstri úti.

Oft er byrjað á að fækka starfsmönnum sem að búa yfir mikilli reynslu og eru jafnvel búin að mennta sig í málefnum tengdum ungmennum. Öflugar félagsmiðstöðvar spila alveg gríðarlega mikinn þátt í félagslegum þroska ungmenna og eru mikilvægur partur í forvarnarstarfi.

Íþróttastarf og styrkir þess vegna voru líka ofarlega í huga ungmennaráðsins.

Íþróttastyrkir, íþróttir og hreyfing eru mikilvægar fyrir alla og þá séstaklega börn. Íþróttirnar ýta undir hreysti og heilsu ásamt því að vera einnig stór partur af félaglegum þroska. Íþróttir fyrir börn eiga samt að vera númer 1 skemmtilegar, númer 2 passlega krefjandi og númer 3 lærdómsríkar. Hér að austan getur það oft reynst erfiðara en til dæmis á höfuðborgarsvæðinu. Ungir krakkar eru farnir að spila mun fyrr upp fyrir sig og jafnvel farin að spila með Meistaraflokki aðeins 15 ára gömul. Þetta setur náttúrulega mikla pressu á einstaklinginn sem getur valdið miklum vanlíðan og skaðað sjálfsmynd. Við erum með uppástungu á möguleika sem þið kæra sveitastjórn getið komið inn. Hún felst í því að sett yrði skilyrði á þau íþróttafélög sem sækjast eftir styrkjum, að þjálfara þurfi að fara á fræðslu um allskyns vandamál sem geta fylgt íþróttinni eins og t.d einelti, of mikil pressa á iðkendur, lágt sjálfsmat eða meiðsli, þar með geta iðkendur leitað til þeirra og þjálfararnir eru undirbúnir og vita hvað er hægt að gera í stöðunni. Okkur finnst þetta einnig mjög mikilvægt þar sem mikið af ungum einstaklingum eru að stíga sín fyrstu skref í þjálfun og vita ekki endilega hvað þau eiga að gera þegar einhvers konar vandamál koma upp.

Skíðasvæði Múlaþings í Stafdal kom einnig til umræðu á fundinum.

Númer 3 er skíðasvæðið, það felst auðvitað mikil kostnaður í að halda upp skíðasvæðinu og ekki mikill gróði kemur á móti. Okkur finnst samt mikilvægt að inni í okkar samfélagi sé mikil fjölbreytin og að það sé eitthvað sem að hentar öllum. Það þýðir að ekki megi draga úr aðstöðu fyrir þá einstaklinga sem hafa áhuga á að stunda/æfa skíði rétt eins og hverja aðra íþrótt innan samfélagsins. Þess vegan viljum óskum við eftir því að ungmennaráð sé haft með í ráðum tengt skíðasvæðum.

Ungmennin klykktu út á fundinum með þeim orðum til sveitarstjórnarfólks að ungmenni sveitarfélagsins séu komandi atkvæðagreiðendur. Það skipti í því sambandi töluverðu máli að sýna málefnum ungmenna áhuga og að þeir hlutir skipti einnig miklu máli.

Frá skíðasvæðinu í Stafdal. Ungmennaráð Múlaþings vill hafa áhrif þegar kemur að því að ákveða hluti þar sem víðar.