Skip to main content

Ungmennaráð vill skoða frekari sameiningu íþróttafélaga í Fjarðabyggð

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. apr 2025 13:02Uppfært 10. apr 2025 13:19

Ungmennaráð Fjarðabyggðar telur að íþróttastarf allt í sveitarfélaginu geti orðið mun skilvirkara en nú er raunin og það gert það að verkum að eftirsóknarverðara verði fyrir iðkendur að stunda íþróttir reglulega.

Það engar nýjar fréttir að íþróttastarf í Fjarðabyggð er bæði flókið og nokkuð þungt í vöfum segir Magnús Árni Gunnarsson, stjórnandi íþrótta- og tómstundamála í sveitarfélaginu, sem verið hefur hugsi lengi um þá stöðu. Bendir hann meðal annars á að samkvæmt upplýsingum frá Ungmennafélagi Íslands séu yfir 300 manns í stjórnum íþrótta- og æskulýðsmála á Austurlandi sem gefi hugmynd um hve umfangið sé stórt og mikið.

Í Fjarðabyggð hafa reyndar verið tekin skref til sameiningar að hluta til og þar meðal annars með því að sameina fótboltann allan undir eitt og sama félagið en Magnús Árni var forvitinn um almenna afstöðu ungmennaráðsins á stöðu og framtíð íþrótta- og æskulýðsmála í sveitarfélaginu.

Að undangengnum umræðum ályktaði ungmennaráðið fyrir skömmu að aukið samstarf eða formleg sameining íþróttafélaga gæti leitt til skilvirkara og hagkvæmara íþróttastarfs, þar sem fjármagn, aðstaða og mannauður, bæði þjálfarar og sjálfboðaliðar, nýtast betur. Ráðið telur að þannig verði starfsemi félaganna eftirsóknarverðara fyrir iðkendur, foreldra, sjálfboðaliða og samfélagið í heild. Um leið er mikilvægt að deildir geti varðveitt menningu og hefðir hvers byggðarlags. Jafnframt ítrekar ráðið að raddir ungs fólks heyrist í þessari stefnumótun, enda eru ungmenni stór hluti iðkenda.

Innan stjórnkerfis Fjarðabyggðar hefur vel verið tekið í ábendingar ungmennanna og skal unnið í þá áttina eftirleiðis.

Ekkert einfalt að halda úti skilvirku íþróttastarfi í víðfemu sveitarfélagi með sex íbúakjarna eins og raunin er í Fjarðabyggð. Mynd Flickr/UÍA