Ungmennaráð Vopnafjarðar sendir sveitarstjórn pillu fyrir að standa ekki við sitt
Vinna átti að hefjast við skólalóðina síðasta vor en ekkert er að gerast þrátt fyrir að trambólínin séu löngu komin, ljósaskilti vantar enn við gangbrautir og engin svör hafa enn borist varðandi kostnað skólafæðis!
Ofangreint eru þrjár kvartanir sem ungmennaráð Vopnafjarðarhrepps bókaði á fundi sínum í síðasta mánuði en óánægja ríkir meðal ungmennanna á hve seint gengur að lagfæra skólalóð grunnskólans og færa til nútímavegar. Hvorki hreppsráð né sveitarstjórn sá ástæðu til að taka bókun ungmennanna til umfjöllunar í kjölfarið fyrir sumarfrí.
Nú finnast ungmennaráð í öllum austfirskum sveitarfélögum nema í Fljótsdalshreppi og skoði fólk bókanir ungmennanna má ljóst vera að þau liggja ekki á sínum skoðunum á fundum og láta heyra í sér ef eitthvað er aflaga. Þannig er fjögurra manna ungmennaráð Vopnafjarðarhrepps nú ósátt við eitt og annað sem lofað hefur verið og þá sérstaklega varðandi skólalóð grunnskólans sem er í dag að mestu svart malbik og þykir heldur lítt spennandi til útiveru þó nemendur hafi skreytt malbikið með myndum síðustu árin.
Aðgerðarleysi gagnrýnt
Ráðið gagnrýnir sveitarstjórn fyrir aðgerðaleysi í sinni síðustu bókun en ein fjögur ár eru liðin síðan nemendur grunnskólans lögðu sjálf niður teikningar af hvernig mætti breyta skólalóðinni til hins betra. Þeim hugmyndum fagnað á sínum tíma en teknar til greina. Þar á meðal þeirri hugmynd að koma fyrir trambólínum á skólalóðinni en þau trambólín hafa nú verið í geymslum Vopnafjarðarhrepps um margra mánaða skeið. Þá fær ráðið engin svör við því hvers vegna nemendur í 1. bekk grunnskólans þurfa að greiða sama gjald fyrir skólafæði og 10. bekkingar því ólíklegt sé að hóparnir séu að borða jafn mikið.
Að sögn bæði Mikaels Víðars Elmarssonar, formanns ungmennaráðs sveitarfélagsins, og Arons Daða Thorbergssonar, nefndarmanns, eru ungmenni bæjarins orðin langþreytt á að betrumbætur sem kynntar voru og samþykktar af hálfu sveitarfélagsins fyrir nokkrum árum skuli tefjast aftur og aftur. Það sé ástæða bókunar ráðsins í síðasta mánuði. Vinna við að betrumbæta skólalóð grunnskólans hafi átt að hefjast fyrir ári síðan en ekkert hafi gerst og ekkert bendi til að nokkur vinna sé að fara þar í gang þó skólinn sé að hefja starfssemi á ný.
Skólalóð grunnskóla Vopnafjarðar þykir nemendum ekki mikið til koma en hægt gengur að fá bæjaryfirvöld til að gera bragarbót á. Mynd Aðsend