Skip to main content

Unnið að snjóflóðavörnum á Seyðisfirði í vetur eins og væri sumar – Myndband

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. jún 2025 11:55Uppfært 26. jún 2025 13:43

Framkvæmdir við snjóflóðavarnamannvirki á Seyðisfirði ganga vel, enda hefur tíðin frá upphafi verks verið einstaklega góð. Stefnt er að á að ljúka við annan varnargarðinn af þremur um miðjan júlí.


„Það hefur satt að segja gengið mjög vel. Það viðraði þannig að 15. maí kom 1. febrúar. Við höfum getað unnið síðan eins og það væri miður maí,“ segir Benedikt Ólason, verkstjóri Héraðsverks á staðnum en það reisir garðana.

Í lok júlí í fyrra var lokið við að reisa fyrsta varnargarðinn, Fjarðagarð, sem er minnstur og fyrir miðju. Í sumar stendur til að ljúka við ysta garðinn, Öldugarð. Utan við garðinn er nýtt stæði fyrir húsbíla og ferðavagna. Héraðsverk skilaði því af sér á fullu fyrr í þessum mánuði. „Við ætlum að klára hann 20. júlí. Hann gengur vel og er kominn fyrir klettana, grindurnar eru klipptar uppi við bergið.“

Erfiðasti hlutinn enn eftir


Eftir það verður allur kraftur settur í innsta garðinn, Bakkagarð. „Hann er meira en hálfnaður en það sem eftir er af honum er erfiðasti kaflinn í verkinu. Þar verður unnið í miklum bratta þar sem þarf gætni og nákvæmni, bæði vélamanna og annarra sem að verkinu koma.

Við eigum eftir að sjá hvernig haustið nýtist en við ætlum að vinna í honum þar til snjóar og vonumst til að komast vel áfram,“ segir Benedikt.

Unnið í þýðu landi í mars


Veðurfar til vinnunnar hefur verið nánast fullkomið síðan framkvæmdir hófust árið 2022. Ekki hafa komið stórrigningar á sumrin og veturnir verið mildir. Síðasti vetur var, eins og Benedikt bendir á, einstaklega góður.

„Sennilega hefur ekki komið svona vetur síðan 1962. Hann kom okkur á óvart en við nýttum okkur þennan sumarauka, um tvo og hálfan mánuð, til fulls. Frá 1. febrúar gátum við unnið í öllum þeim verkþáttum sem við vildum. Við vorum meira að segja að ganga frá landi, slétta og klára göngustíga, í þýðu landi í mars.“

En það er ekki bara veðrið sem tryggir að verkið gangi vel. Mikil reynsla er komin hjá Héraðsverki sem hefur meðal annars unnið í snjóflóðavörnum á Norðfirði síðustu ár. „Við erum með mjög flinka vélamenn og í þessu höfum við haft nánast sama mannskap allan tímann, í kerfinu úti eru ungir og mjög duglegir menn.“