Skip to main content

Unnið hörðum höndum að mokstri en annar hvellur framundan

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. feb 2022 10:22Uppfært 25. feb 2022 11:13

Gular viðvaranir eru í gildi á öllu Austurlandi en síðdegis í dag byrjar að hvessa rækilega á nýjan leik og því fylgir meiri snjókoma eða slydda í mestöllum fjórðungnum fram á kvöldið.

Gerir Veðurstofan ráð fyrir vindhraða frá 13 til 20 metrum á sekúndu í fjörðunum en allt upp í 25 metra á Héraði og upp Norðausturlandið. Skyggni verður lélegt og hætta á að færð spillist fljótt aftur. Íbúar ættu að hreinsa frá niðurföllum eins og hægt er til að forðast hugsanlegt vatnstjón.

Mokstur gengur víðast hvar vel en tekur sinn tíma enda snjóalög óvenju mikil víða og þá sérstaklega á götum bæja. Miklir snjóhaugar eru farnar að safnast upp á stöku stöðum og íbúar beðnir um að gæta sín enda byrgi þeir ökumönnum stundum sýn.

Velflestar leiðir eru opnar samkvæmt Vegagerðinni en alls staðar hálka og víðast snjóþekja ofan á það. Þungfært er í Skriðdal.