Skip to main content

Uppbygging húsnæðis forsenda þess að hægt sé að nýta tækifærin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. maí 2022 11:20Uppfært 25. maí 2022 11:21

Fjölþættar aðgerðir til að örva uppbyggingu íbúðarhúsnæðis eru meðal áherslna í málefnasamningi nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Múlaþingi.


Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu fyrst meirihluta í sveitarstjórn Múlaþings eftir kosningarnar 2020, Sjálfstæðisflokkur með fjóra fulltrúa en Framsókn tvo. Hlutfallið jafnaðist eftir kosningarnar fyrir 11 dögum. Flokkarnir eiga þó eftir sem áður sex af ellefu fulltrúum í sveitarstjórn.

„Málefnasamningurinn er áþekkur þeim sem gerður var á síðasta kjörtímabili þótt í honum megi finna áherslur úr kosningabaráttunni,“ sagði Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti Framsóknarflokks við undirritunina í Sláturhúsinu á Egilsstöðum í gær.

Íbúðahúsnæði skortir um allt Múlaþing og í meirihlutasamkomulaginu segir að leysa eigi vandann með fjölþættum aðgerðum, svo sem virku samtali við verktaka í sveitarfélaginu sem annars staðar frá auk hvataaðgerða, svo sem afslátta. Þar segir einnig að tryggja þurfi fjölbreytt framboð lóða auk leiðbeinandi ráðgjafar á öllum stigum framkvæmda.

„Við viljum tryggja að farið verði af stað með þær framkvæmdir sem teiknaðar eru upp, bæði af þeim verktökum sem eru hér og þeirra sem koma utan frá. Við höfum borðið upp á afslátt af gatnagerðargjöldum og skoðum endurgreiðslu þeirra ef byggt er innan árs. Við þurfum líka að fara í samræður við verktaka hér um þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir til að fá þá til að fara af stað,“ sagði Jónína.

„Öflug húsnæðisuppbygging er lykillinn að því við getum gripið tækifæri sem hér eru. Ef hún fer ekki af stað af krafti þá höfum við hvata,“ sagði Berglind Harpa Svavarsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins.

„Það liggja gríðarleg tækifæri á landsbyggðinni og hér sem við ætlum að grípa,“ sagði hún. Uppbygging Egilsstaðaflugvallar sem varaflugvallar fyrir Keflavík og um leið þannig hann geti þjónað bæði farþega- og fraktflugi milli landa er meðal áherslna í samkomulaginu. „Hann er einn af lyklunum að því að við getum vaxið með uppbyggingu.“

Í samkomulaginu segir einnig að hafnamál fái aukið vægi í starfsemi sveitarfélagsins. Til þess verði sóttir fjármunir frá ríkinu til uppbyggingar og viðhalda þeirra og markaðsátak gert með áherslu á skemmtiferðaskip.

Í stjórnsýslu er talað um að kanna samlegð í rekstri, auka sérhæfingu starfsfólks, nýta rafrænar lausnir, stytta boðleiðir og efla samráð sem allt skili sér í bættri þjónustu til íbúa. „Við viljum vera öflugt sveitarfélag með öfluga, víðtæka þjónustu,“ sagði Berglind Harpa.

Tekið er sérstaklega fram að unnið verði markvisst að því að sækja opinber verkefni og störf á vegum ríkisins inn í sveitarfélagið um leið og þau sem fyrir eru verði varin. Innviðagreining verði gerð og niðurstöður hennar nýttar til markaðssetningar innanlands sem utan. Þá miði innkaupastefna sveitarfélagsins í að fjárfesta í vörum og þjónustu á heimamarkaði „sé þess nokkur kostur.“

Ekkert segir sérstaklega um uppbyggingu fiskeldis á Seyðisfirði eða annars staðar í sveitarfélaginu í samkomulaginu. „Við styðjum áfram við alla atvinnuuppbyggingu í sveitarfélaginu. Við vísum til þess,“ svaraði Jónína þegar spurt var út í fiskeldið við undirritunina í gær.