Skip to main content

Uppgötvaði nýja veiru sem herjar fyrsta sinni á íslenska refinn

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. apr 2025 15:14Uppfært 02. maí 2025 11:24

Svokölluð hundasogslús hefur líklega uppgötvast fyrsta sinni í íslenska refastofninum eftir ábendingu þar að lútandi frá Reimari Ásgeirssyni, uppstoppara á Egilsstöðum.

Greint var frá þessari niðurstöðu á vef Náttúrustofu Austurlands nýverið en Reimar hafði samband við stofnunina snemma í síðasta mánuði þegar hann veitti því athygli að kviður refs sem hann hafði nýlokið við að súta var með harla óvenjulegum lit.

„Ætli ég hafi ekki stoppað upp hundruðir og jafnvel vel yfir þúsund refahræ gegnum tíðina svo ég veitti þessu strax athygli en þó ekki fyrr en ég var búinn á súta dýrið. Þá varð óvenjulegur liturinn sérstaklega áberandi og þegar ég skoðaði betur tók ég eftir þessum óvenjulegu skordýrum í hárum dýrsins.“

Reimar hafði umsvifalaust samband við Náttúrustofu Austurlands sem í kjölfarið myndaði dýrið í smásjá og eftir að hafa ráðfært sig við dýrafræðinga sunnanlands þótti ljóst vera að um væri að ræða fyrrgreinda hundasogslús sem eins og nafnið gefur til kynna hefur fyrst og fremst fundist í hundum. Frekari rannsóknir standa nú yfir en líkurnar þykja sterkar að um sé að ræða þá lúsartegund.

Reimar segir að eftir því sem hann komist næst séu sníkjudýr af þessari tegund þekkt erlendis frá en það merkilega sé að svo virðist sem mismunandi tegundir þessarar lúsar sé að finna annars vegar á Svalbarða og hins vegar í Noregi. Hafa verið leiddar líkur að því að lýs sem finnast á refum á þeim stöðum séu annarrar tegundar en hundasogslýsnar.

Lýsnar sem um ræðir hafa aldrei, svo vitað sé, fundist í íslenskum refum áður en þær eru meira en skeinuhættar því þær draga, með tímanum, dýrið til dauða. Mynd Náttúrustofa Austurlands