Uppsagnir Eflingar ganga þvert á grundvallarsjónarmið verkalýðshreyfingarinnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 27. apr 2022 11:46 • Uppfært 27. apr 2022 11:46
Aðalfundur AFLs Starfsgreinafélags, sem haldinn var síðasta laugardag, sendi frá sér áskorun til stjórnar Eflingar stéttarfélags um að koma á sátt á skrifstofu félagsins.
Sem kunnugt er ákvað meirihluti stjórnar Eflingar fyrr í þessum mánuði að segja upp öllum starfsmönnum skrifstofunnar við endurskipulagningu. Hefur það víða mætt gagnrýni og nú aðalfundar AFLs, sem haldinn var á Djúpavogi á laugardag.
Í ályktun fundarins eru uppsagnir Eflingar sagðar ganga „þvert gegn grundvallarsjónarmiðum verkalýðshreyfingarinnar,“ sem frá upphafi hafi barist fyrir því að launafólk gjaldi ekki skoðana sinna eða málflutnings með atvinnumissi. Skýrar kröfur séu gerðar til vinnuveitenda um að mismuna ekki starfsmönnum eða skipti sér af þeim vegna stjórnmálaskoðana eða stéttarfélagsaðilar.
Þá hafi verkalýðshreyfingin krafist þess að hópuppsagnir séu örþrifaráð fyrirtækja í vanda sem ekki sé gripið til fyrr en öll önnur úrræði séu fullreynd og þá í samráði við viðkomandi verkalýðsfélög og Vinnumálastofnun. Ljóst sé af fréttum að hvorki hafi verið haft slíkt samráð né reynt að ná sátt á vinnustaðnum áður en gripið var til uppsagnanna.
Bent er á að Efling sé eitt stærsta verkalýðsfélag landsins og hafi í áratugi verið leiðandi í kjarabaráttu verkafólks. Til þess leiti þúsundir félagsmanna í hverjum mánuði með margvís vandamál. Mikil sérfræðiþekking hafi glatast á skrifstofu þess síðustu ár vegna mikillar starfsmannaveltu. Fyrir þessu finni önnur verkalýðsfélög þar sem félagsmenn Eflingar leiti til þeirra eftir ráðgjöf og aðstoð.
Þess vegna skorar AFL á stjórn Eflingar að draga uppsagnirnar til baka og axla forustuhlutverk sitt með að koma á sátt á vinnustaðnum, félaginu og verkalýðshreyfingunni allri til farsældar.
Mynd úr safni.