Uppselt að verða á tjaldsvæðinu á Egilsstöðum

Engum dylst sem ekið hefur framhjá tjaldsvæðinu á Egilsstöðum síðustu dagana að þar eru stæðin orðin vel troðin en þó ekki alveg orðið uppselt. Sterkar líkur eru á að það verði raunin síðar í vikunni.

Það er Heiður Vigfúsdóttir sem rekur tjaldsvæðið á Egilsstöðum og hún þekkir það vel hvað gerist þegar Austurlandið fær góða strauma frá veðurguðum eins og spár gera ráð fyrir. Þær sýna velflestar sterkar líkur á glampandi sól og hita um eða yfir 20 stigum vel framyfir næstu helgi.

„Við erum auðvitað alltaf með töluverðan fjölda útlendinga sem ferðast eftir sínum áætlunum meðan Íslendingurinn lætur veðrið ráða för sinni. Það hefur undantekningarlaust gerst þegar spár eru svona góðar að tjaldsvæðið hér og víðar fyllast en það ekki alveg komið að þeirri stund ennþá. Það er orðið fullt hjá okkur í þessi bókanlegu stæði sem þarf að panta fyrirfram en við erum einnig með svæði hinu megin vegarins þar sem reglan fyrstur kemur, fyrstur fær er við lýði og þar eru enn einhver stæði laus fyrir þá sem ekki þurfa rafmagn. Við erum sem sagt bæði með nýja bóka fyrirfram kerfið og gamla kerfið sem margir kunna betur við.“

Heiður telur þó líklegt að allt tjaldsvæðið fyllist þegar nær dregur helginni samkvæmt sinni reynslu. Hún hefur ekki upplýsingar um stöðuna á öðrum nálægum tjaldsvæðum en finnst líklegt að þangað leiti vaxandi fjöldi fólks næstu dægrin.

„Tjaldsvæðin hér í kring hafa jafnan verið með töluverða samvinnu þegar ásóknin er orðin þetta mikil og stutt í að svæðin fyllist. Þá reynum við öll auðvitað að finna pláss annars staðar fyrir þá sem hér vilja koma sér fyrir. Ég á von á að við förum að tala saman síðar í vikunni vegna þess enda sjálfsögð þjónusta við ferðafólk sem hingað kemur.“

Mynd tekin síðdegis í gær á tjaldsvæðinu. Stæðin uppseld orðin á aðalsvæðinu en enn má finna lausa bletti á gamla tjaldsvæðinu hinu megin vegar. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.