Úrbætur á Loftbrú fyrir fósturforeldra barna í varanlegu fóstri
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. júl 2023 15:10 • Uppfært 03. júl 2023 15:10
Vegagerðin vinnur nú að úrbótum á Loftbrúarkerfinu fyrir foreldra barna í varanlegu fóstri. Umboðsmaður Alþingis gerði athugasemdir við að aðeins væri hægt að sækja um aflsáttarkóða með rafrænum hætti.
Umboðsmaður tók málið til athugunar í kjölfar frétta í lok febrúar um að fósturforeldrar gætu ekki virkjað afsláttarkóða Loftbrúar vegna barna sinna á Island.is. Vegagerðin, sem heldur utan um Loftbrúna, bar því við í fréttinni að persónuvernd kæmi í veg fyrir að hægt væri að virkja kóðann handvirkt.
Síðasta haust hafði umboðsmaður hins vegar bent Vegagerðinni á að hún mætti ekki haga hlutunum þannig að aðeins væri hægt að sækja kóðann rafrænt í gegnum Island.is. Þá hefðu þær upplýsingar borist að hugbúnaði hefði verið breytt þannig að starfsfólk Vegagerðarinnar gæti sótt kóða fyrir hönd umsækjenda.
Í svari Vegagerðarinnar við þessari umleitan kemur framað stofnunin vinni að úrbótum á texta á heimasíðu Loftbrúar þar sem fólki verði leiðbeint um hvernig hægt sé að nálgast kóða með öðrum hætti en í gegnum Island.is.
Á móti kemur fram að vandamál hafi komið upp við kóða barna í varanlegu fóstri. Ekki sé hægt að afgreiða kóða handvirkt á þeim svæðum sem Loftbrúin nær yfir nema forsjáraðilar séu þar líka með lögheimili. Þær breytingar eru komnar í gegn.
Umboðsmaður hyggst því ekki aðhafast frekar að sinni en óskar eftir upplýsingum um framvindu málsins fyrir 1. október.