Skip to main content

Úrbætur hjá Mjólkursamsölunni tefjast vegna Covid

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. mar 2022 11:28Uppfært 02. mar 2022 11:47

„Ástæða þess að þetta hefur dregist á langinn skýrist af því að tafir hafa orðið á opnun verksmiðju á Sauðárkróki sem á að vinna úr þessum efnum sem þarna fara í Fljótið,“ segir Ólafur Ragnarsson, rekstrarstjóri hjá MS.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands hefur um nokkurt skeið krafist þess að Mjólkursamsalan á Egilsstöðum (MS) ljúki framkvæmdum við hreinsun á fráveituvatni en nokkuð magn óleyfilegra efna streyma enn út í náttúruna frá fyrirtækinu en þar um að ræða leysiefni úr mysu. Fékk fyrirtækið frest um mitt ár 2020 til að ljúka öllum úrbótum og skyldi þeim lokið í síðasta lagi í lok árs 2021.

Þeim framkvæmdum er enn ekki lokið þó fresturinn sé liðinn en í samtali við Austurfrétt segir Ólafur Ragnarsson, rekstrarstjóri, að ástæðan séu tafir sem rekja megi til Covid.

„Við höfum gert ýmislegt til að bæta úr og mikill árangur náðst hingað til. Það sem hér um ræðir er í raun nánast bara sykurvatn úr mysu og hugmyndin okkar er að vinna enn frekar úr þessum efnum og til þess var byggð verksmiðja til þess verks á Króknum. Starfsemi þar átti að hefjast um þessar mundir samkvæmt áætlunum okkar en ýmsar tafir sem rekja má til Covid hafa orðið og nú erum við að vona að starfsemin geti hafist síðla þessa árs. Í kjölfar þess söfnum við þessum efnum saman og flytjum norður til frekari vinnslu svo ekkert mun fara til spillis.“

Ólafur bendir á að efnin sem hér um ræðir séu engin eiturefni. Þau ógni ekki lífríki á neinn hátt og safnist ekkert saman. Þvert á móti þynnast þau út og enda á hafi úti með tíð og tíma.

Mynd: Í Lagarfljótið rennur enn töluvert af óleyfilegum efnum og þar á meðal frá MS á Egilsstöðum