Skip to main content

Úrgangstimbur tryggir orku í Neskaupstað

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 15. feb 2022 15:34Uppfært 15. feb 2022 15:34

„Nú geta menn brátt hætt að brenna allri þessari olíu og líkast til helmingast olíubrennslan á staðnum með þessari nýju stöð,“ segir Einar B. Kristjánsson, framkvæmdastjóri Tandrabretta.

Fyrirtækið hefur lengi starfrækt vörubrettaframleiðslu í Neskaupstað en nú hafa menn fært út kvíarnar og fyrirtækið komið í orkuframleiðslu. Þeir eiga og munu reka nýja kyndistöð sem sett hefur verið upp í bænum en sú verður tengd fjarvarmaveitu sveitarfélagsins. Fyrirtækið mun einnig framleiða það eldsneyti sem stöðin þarf.

Einar segir að slíkar kyndistöðvar séu mjög algengar víða í Evrópu enda séu skógar í álfunni reglulega grisjaðir og úr því efni sem til fellur séu gjarnan framleiddar umræddar viðarperlur sem henta vel til brennslu.

„Hér er í grunninn verið að breyta úrgangstimbri í viðarperlur eða viðarpellettur með sérstöku búnaði, þær svo brenndar í sérstökum ofni og úr verður hiti sem veita sveitarfélagsins mun nýta sér. Hér verður því engin mengun til því hér er um lífmassaeldsneyti að ræða.“

Aðeins verður notað úrgangstimbur til framleiðslunnar en það timbur er til dæmis fengið frá álveri Fjarðaáls og fiskvinnslufyrirtækjum í sveitarfélaginu.

Önnur slík stöð í Hallormsstað

Ein gömul og lúin kyndistöð er við hótelið í Hallormsstað og þar mun Tandrabretti setja upp glænýja stöð í staðinn með vorinu. Mikil tækniframþróun hefur orðið í slíkum kyndistöðvum á skömmum tíma og telur Einar engan vafa leika á að þegar grisja þarf stærri skóga á Austurlandi geti kyndistöðvar leikið stórt hlutverk í grænni framtíð.