Úrhelli í Neskaupstað en aðeins ein lítil skriða tilkynnt

Úrkoma yfir 24 tíma tímabil í Neskaupstað mældist rúmir 106 mm. Þaðan hefur borist ein tilkynning um litla skriðu. Viðbúið er að fleiri komi í ljós á Austfjörðum þegar birtir til í dag. Skriðuhættan minnkar jafnt og þétt eftir að stytt hefur upp.

Veðurstofan gaf út gula viðvörun fyrir gærdaginn vegna úrkomu og varðaði jafnframt við skriðuhættu. Veðurspáin gekk nokkuð og úrkomutölur urðu nærri þeim sem spáð var.

Mest rigndi í Neskaupstað. Þar mældist úrkoma frá því klukkan átta á sunnudagskvöld þar til klukkan átta í gærkvöldi 106,6 mm. Á Fáskrúðsfirði var úrkoman síðustu 48 tíma 96 mm. Á Dalatanga var úrkoman 77 mm. Greinilegt var að Austfjarðafjallgarðurinn skýldi Héraði vel í gær því úrkoman á Egilsstöðum mældist aðeins 0,9 mm.

Tilkynnt var um eina litla skriðu á Norðfirði í gær, utan við Bræðslugjá. Viðbúið er að fleiri skriður sjáist þegar birtir til yfir fjöllunum í dag. Austfirðingar eru hvattir til að láta vita af skriðum, bæði má hringja í Veðurstofuna í síma 522-6000 eða nota eyðublað fyrir snjóflóðatilkynningar á vef hennar.

Líkurnar á skriðum minnka eftir að styttir upp þótt áfram sé hætta fyrir hendi þar sem mikið er í ám og lækjum. Einhverjar skúrir gætu fallið í dag en annars á að vera þurrt framundan.

Mynd úr safni
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.