Skip to main content

Úrkoman hvað mest í Mjóafirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. apr 2024 07:52Uppfært 08. apr 2024 08:24

Ekki hafa borist neinar tilkynningar enn um snjóflóð á Austfjörðum um helgina þótt óvissustigi hafi verið lýst yfir á svæðinu á laugardagskvöld og gripið til rýminga á Seyðisfirði og Norðfirði. Talsvert hefur þó snjóað á svæðinu.


Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar hefur úrkoman verið meiri á norðanverðum Austfjörðum. Hún virðist hafa verið hvað mest í Mjóafirði auk þess sem dálítið hefur bætt við á Seyðisfirði, svo sem í Kálfabotnum.

Minna hefur snjóað í kringum Neskaupstað. Viðbúið er að víða til fjalla hafi bætt í snjóinn. Heldur dregur úr úrkomunni í dag og styttir upp á morgun.

Engar tilkynningar hafa borist um snjóflóð. Slæmt skyggni getur falið þau í vondum veðrum en á Seyðisfirði er til dæmis þokkalega bjart.

Framundan eru morgunfundir, fyrst innan Veðurstofunnar og síðan með almannavörnum. Þar verður ástandið metið, meðal annars framhald rýminganna sem gripið var til á laugardagskvöld.

Fjallvegir á Austurlandi eru flestir ófærir en Á Fagradal er þungfært. Á Fljótsdalshéraði er ýmist ófært, þungfært eða þæfingur en hálka eða snjóþekja á fjörðum. Milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs eru aðeins hálkublettir og greiðfært sunnan Djúpavogs.

Fundi, sem halda átti á Egilsstöðum í dag um stefnumótun skíðasvæðanna, hefur verið frestað.