Úrkoman hvað mest í Mjóafirði

Ekki hafa borist neinar tilkynningar enn um snjóflóð á Austfjörðum um helgina þótt óvissustigi hafi verið lýst yfir á svæðinu á laugardagskvöld og gripið til rýminga á Seyðisfirði og Norðfirði. Talsvert hefur þó snjóað á svæðinu.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar hefur úrkoman verið meiri á norðanverðum Austfjörðum. Hún virðist hafa verið hvað mest í Mjóafirði auk þess sem dálítið hefur bætt við á Seyðisfirði, svo sem í Kálfabotnum.

Minna hefur snjóað í kringum Neskaupstað. Viðbúið er að víða til fjalla hafi bætt í snjóinn. Heldur dregur úr úrkomunni í dag og styttir upp á morgun.

Engar tilkynningar hafa borist um snjóflóð. Slæmt skyggni getur falið þau í vondum veðrum en á Seyðisfirði er til dæmis þokkalega bjart.

Framundan eru morgunfundir, fyrst innan Veðurstofunnar og síðan með almannavörnum. Þar verður ástandið metið, meðal annars framhald rýminganna sem gripið var til á laugardagskvöld.

Fjallvegir á Austurlandi eru flestir ófærir en Á Fagradal er þungfært. Á Fljótsdalshéraði er ýmist ófært, þungfært eða þæfingur en hálka eða snjóþekja á fjörðum. Milli Breiðdalsvíkur og Djúpavogs eru aðeins hálkublettir og greiðfært sunnan Djúpavogs.

Fundi, sem halda átti á Egilsstöðum í dag um stefnumótun skíðasvæðanna, hefur verið frestað.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.