Skip to main content

Útboð vegna Axarvegar hefst með vorinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. feb 2022 10:01Uppfært 05. feb 2022 18:00

Fyrirhuguð veglína nýs heilsárvegar yfir Öxi mun að stærstum hluta fylgja núverandi vegi samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar en hann verður þó bæði mun beinni og styttri auk þess sem veghalli verður hvergi meiri en 8% í stað 21% halla á núverandi vegi.

Þetta er meðal þess sem fram kom á sérstökum kynningarfundi Vegagerðarinnar vegna Axarvegar en stefnt er að því að sá vegur verði opinn allt árið um kring. Ekkert liggur fyrir um hvenær verkið hefst enda veltur það á ýmsum þáttum sem ekki eru ljósir eins og er en verktíminn mun verða kringum þrjú ár þegar það hefst.

Engu er hægt að svara um veggjöld þau sem lögð verða á vegfarendur þegar nýr vegur verður kominn í gagnið því það sömuleiðis veltur á samningum við framkvæmdaaðila og áætlaðri umferð um veginn þegar þar að kemur. Spár gera þó ráð fyrir að umferð á ársgrundvelli muni því sem næst tvöfaldast frá því sem nú er.

Ný brú og klæðning alla leið

Lögð verður ný brú yfir Berufjarðará sem hluti af verkefninu og klæðning verður á veginum öllum. Gert er ráð fyrir að minnsta kosti tveimur áningarstöðum á leiðinni auk keðjuplana nálægt helstu náttúruperlum.

Vegstytting

Nýi vegurinn mun verða einum og hálfum kílómetra styttri en núverandi vegur en það næst með því að skera út margar af þeim kröppu beygjum sem á veginum eru nú. Ljóst er hins vegar að töluvert landrask verður af framkvæmdinni þess vegna.

Ósamið við landeigendur

Þegar hefur verið haft samband við landeigendur sem eru fjölmargir þó eignarlöndin séu tiltölulega fá. Ekki er þó búið að semja við neina þeirra enn sem komið er.

Fer í sömu hæð og núverandi vegur

Nýi vegurinn mun á hæsta punkti fara í 520 metra hæð eins og núverandi vegur en stærstu kaflar hins nýja vegar munu liggja töluvert neðan en nú er.

Heildar efnisþörf jarðefna er áætluð rétt tæplega 1,4 milljónir rúmmetra, en gert er ráð fyrir að stærstur hluti þess efnis komi úr skeringum í vegstæði.

Mynd: Tölvugerð mynd af veglínunni efst Berufjarðarmegin. Þetta nánast eini kaflinn þar sem nýi vegurinn er í töluverðri fjarlægð frá þeim gamla sem sést ofarlega til hægri.