Skip to main content

Útgerð Gullvers hætt næsta vor

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 29. sep 2025 13:43Uppfært 30. sep 2025 14:33

Útgerð togarans Gullvers á Seyðisfirði verður hætt eftir sex mánuði. Skipverjum var tilkynnt þetta á laugardag. Stefnt er að því að sem flestir fái önnur störf innan fyrirtækisins.


RÚV greindi fyrst frá uppsögnunum. Þar er sagt frá því að 15 manns séu í áhöfn Gullvers en fleiri en tveir um sum plássin, þannig að ákvörðunin hefur áhrif á um 20 manns.

Skipverjum var tilkynnt um ákvörðunina áður en skipið lét úr höfn til veiða eftir hádegi á laugardag. „Við fréttum af þessu rétt áður en skipverjum var tilkynnt þannig okkur gafst ekki færi á að taka þátt í fundi með þeim,“ segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags, í samtali við Austurfrétt.

„Samkvæmt upplýsingum okkar frá Síldarvinnslunni eru vonir til þess að flestir þeirra sem fengu uppsagnarbréf geti fengið aðra vinnu hjá Síldarvinnslunni, annað hvort á sjó eða í landi,“ segir hann.

RÚV greinir einnig frá því að áhöfn Jóhönnu Gísladóttur GK hafi einnig verið sagt upp og því skipi verði lagt um leið. Það er í eigu Vísis, dótturfélags Síldarvinnslunnar.

Síldarvinnslan keypti útgerðina Gullberg, sem gerði út Gullver og fiskiðjuver Brimbergs á Seyðisfirði árið 2014. Frystihúsinu var lokað vorið 2024. Eftir er fiskimjölsverksmiðja á staðnum í eigu Síldarvinnslunnar.

Mynd: Síldarvinnslan/Ómar Bogason