Útgerðarsaga Stöðvarfjarðar í máli og myndum á hafnarbakkanum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. júl 2025 16:26 • Uppfært 28. júl 2025 16:26
Stöðfirðingarnir Björgvin Valur Guðmundsson og bræðurnir Sólmundir og Sigurjón Friðrikssynir hafa sett upp sýningu um útgerð á Stöðvarfirði á garði sem gengur út í fjörðinn frá frystihúsinu. Þar má sjá skilti með myndum og upplýsingum um báta sem þaðan voru gerðir út.
Sigurjón er sá eldri og man því lengra aftur í tímann, en faðir þeirra, Friðrik Júlíus Sólmundarson, var einn af þeim sem stofnuðu útgerðarfélagið Vörð á sínum tíma.
„Þetta var töluverður barningur, þessi útgerð þarna fyrstu árin, eins og reyndar við var að búast enda lántökur og slíkt áhvílandi. En þó seldu þeir gamla Vörð strax um 1953, ef minnið bregst mér ekki, og keyptu bát frá Færeyjum sem alltaf var kallaður Færeyski Vörður. Sá bátur var smíðaður í Danmörku og var stærri en fyrsti Varðarbáturinn. Þeir gerðu í raun ekki út á neitt sérstakt enda voru aðeins lína og færi á þessum litlu bátum á þessum tíma,“ rifjar hann upp.
Fimm árum síðar kom annar bátur, smíðaður í Danmörku og hét Heimir. „Illu heilli þá misstu þeir nafnið Vörður út af einhverjum vandræðum, þannig að þessi nýi bátur sem þeir keyptu árið 1958 fékk nafnið Heimir. Það gerðist þegar þeir voru ytra að kaupa og sjósetja bátinn undir Varðarnafninu en þeir fengu skeyti að heiman þess efnis að nafnið væri ekki lengur í þeirra eigu. Þeir ruku þá í skipaskrána og þá kom í ljós að Heimisnafnið var laust og þeir tryggðu sér það.“
Varðarútgerðin óx svo og dafnaði með árunum og bátarnir gerðust stærri og stærri. Svo fór þannig að árið 1977 var útgerðin felld inn í það sem þá var Hraðfrystistöð Stöðvarfjarðar, í kjölfar kaupanna á Kambaröstinni sem varð þá langstærsta skipið á Stöðvarfirði fram að þeim tíma.
Frá fyrsta þilfarsbátnum að síðasta togaranum
Sólmundur segir að nokkur vinna sé að baki við söfnun heimilda og mynda fyrir sýninguna. „Mesta vinnan hefur farið í að finna heppilegar myndir á sýningarspjöldin sem við setjum upp. Það hefur farið töluverður tími í að finna þær sem sýna viðkomandi báta og skip á fallegan hátt. Það hefur greinilega verið misjafnt hversu margir hafa haldið eftir myndum frá fyrri tíð og líklega voru ekki svo margir heldur sem voru almennt að taka myndir af lífinu við bryggjuna.“
Sýningin hefur verið sett upp í áföngum en alls stendur til að fjalla þar um 20 báta. „Almennt þá er komin góð heildarmynd á þetta safn skipa og báta sem máli skiptu en svo er það auðvitað stóra spurningin um hvar á að stoppa. Það var auðvitað mikið uppgangstímabil þegar togaravæðingin hófst fyrir alvöru. Það voru þrír skuttogarar sem voru þá þarna í verkefnum, minnir mig, í byrjun tíunda áratugarins, en ekki löngu síðar fór allt niður á við á Stöðvarfirði eins og víðar í landinu.
Ég hafði hugsað mér að gera þeim tíma skil sérstaklega á skiltunum en auðvitað getur bæst ofan á það eftir atvikum. En í grunninn var hugmyndin að mynda sýningu frá fyrsta þilfarsbátnum að síðasta togaranum í plássinu, til að benda gestum á að mikið líf var á þessum fámenna stað á sínum tíma,“ segir Sólmundur.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.