Úthluta aftur úr snjóflóðasjóði Rótarýklúbbs Neskaupstaðar
Enn eru töluverðir fjármunir eftir í sjóðum Rótarýklúbbs Neskaupstaðar eftir vel heppnaða söfnunarherferð snemma í vor en sú var haldin til styrktar þeim er urðu fyrir fjárhagslegu tjóni sem ekki fékkst bætt í kjölfar snjóflóðanna í bænum í marsmánuði.
Þeir fjármunir eiga ekki að sitja fastir á bók því klúbburinn undirbýr nú að auglýsa aftur eftir styrkumsóknum enda segir Guðmundur Höskuldsson, formaður, að ýmist tjón hafi einfaldlega ekki verið komið í ljós í maí þegar úthlutað var úr sjóðnum.
„Sem dæmi um það er skemmdust úthurðar og anddyri á annarri blokkinni sem fyrir einu flóðinu varð í vor. Það var aðeins lagfært til bráðabrigða á sínum tíma og svo hafa skemmdirnar einfaldlega aukist eftir allar þessar rigningar í sumar. Þannig að það eru margir sem bera tjón sem hefur komið í ljós með tímanum og það eru allir velkomnir að leita til okkar.“
Klúbburinn mun auglýsa styrkina á vef sínum og sömuleiðis á fésbókarsíðu sinni á næstu dögum og vikum en fólki jafnframt frjálst að hafa beint samband við Guðmund ef eitthvað er.
Margt það tjón sem íbúar í Neskaupstað urðu fyrir síðasta vetur var ekki tryggt né bætt að neinu leyti. Rótarýklúbburinn hyggst greiða fleiri styrki til þess fólks á næstunni. Mynd Hlynur Sveinsson