Skip to main content

Útilokað að blóðþorrinn hafi borist erlendis frá

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. maí 2022 08:51Uppfært 31. maí 2022 08:51

Útilokað er talið að meinvirk ISA veira sem veldur sjúkdóminum blóðþorra í eldislaxi, sem fundist hefur bæði í Reyðarfirði og Berufirði að undanförnu, hafi borist með hrognum erlendis frá. Líklegast er að hún hafi borist með eldisbúnaði þótt erfitt sé að sanna það. Veiran á ekki að geta borist í villtan lax.


Þetta kemur fram í svörum Gísla Jónssonar, sérgreinalæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, við fyrirspurnum Austurfréttar. Í byrjun síðustu viku var blóðþorri staðfestur á eldisstöð Laxa að Vattarnesi í Reyðarfirði, þriðju og síðustu stöðinni í firðinum. Blóðþorri hafði aldrei greinst áður hérlendis þegar hann fannst að stöð Laxa að Gripalda í firðinum í lok nóvember.

Í lok síðustu viku var síðan gefið út að grunur væri um blóðþorra að eldisstöð Fiskeldis Austfjarða við Hamraborg í Berufirði. Jákvæð svörun fékkst við sýnatökur en nánari niðurstaðna er að vænta í dag. Viðbrögð við veirunni er að slátra öllum fiskum í eldi á viðkomandi svæði og hvíla það síðan í þrjá mánuði.

Gísli bendir á að góðkynja og algjörlega meinlaust afbrigði ISA-veirunnar finnist alls staðar í umhverfi laxfiska en yfirleitt í afar litlu mæli. Frá desember í fyrra fram til nú í maí hafi verið tekin um 2.500 sýni úr eldisfiskum á Austfjörðum, þar af hafi fundist sjö tilfelli saklausa afbrigðisins. Í kynbótafiski séu tekin árlega 8.000—14.000 sýni og þar finnist saklausa veiran í þremur af hverjum 1000 fiskum eða 0,3%.

Enginn skyldleiki við erlendar veirur

Meinvirka veiran er ekki óþekkt í eldi erlendis og hefur valdið usla í gegnum tíðina í Færeyjum, Noregi og Síle, svo dæmi séu nefnd. Rannsóknir í Síle fyrir 15 árum bentu til þess að veiran hefði borist hrognum sem flutt voru frá Noregi. Aldrei fékkst fullkomin staðfesting á hvort svo væri eða ekki.

Sá möguleiki er ekki fyrir hendi hérlendis því hvorki eru flutt hrogn né seiði til landsins. Benchmark Genetics Iceland, áður StofnFiskur, eldur laxa hérlendis til kynbóta og dreifingar bæði á markaði innanlands og utan. Stofn þess er í grunninn norskur, fluttur inn sem sótthreinsuð hrogn á árunum 1984-86.

Gísli segir að búið sé að raðgreina og skoða íslenska afbrigði meinvirku ISA-veirunnar mjög vel. Þar sem hún hafi ekki greinst áður hérlendis sé ekki hægt að bera hana saman við innlendar veirur en hægt sé að bera hana saman við greiningar frá til dæmis Noregi, Færeyjum og Skotlandi. „Þessi austfirska veira er ansi fjarskyld þeim og ekkert sem bendir til neins skyldleika þarna á milli. Við getum því útilokað að um smitdreifingu erlendis frá sé að ræða,“ segir Gísli.

Ekki fannst heldur neinn skyldleiki milli meinvirku veirunnar í eldinu eystra og meinlausu veirunnar í kynbótastöðvum Benchmark Genetics. Eins hafa verið skoðaðar meinlausar ISA-veirur í fiskum Benchmark og erlendis. Þar hefur enginn skyldleiki fundist svo ljóst þykir að meinlausa afbrigðið berst ekki með hrognum.

Smitleiðirnar ófundnar

Gísli ítrekar því það sem áður hefur komið fram að meinlausa ISA veiran hafi einhvern vegin stökkbreyst yfir í þá sem veldur blóðþorra. Ekki er ljóst hvað varð en bent hefur verið á umhverfisþætti sem valdið hafa álagi á fiskana á síðasta ári, svo sem vetrarstorma, þörungablóma og marglyttur.

Almennt er veiran talist berast með sjávarstraumum eða búnaði. Þess vegna hafa stöðvarnar, þar sem veiran hefur greinst, alltaf verið einangraðar strax og veirunnar hefur orðið vart. Þess vegna kom líka á óvart að veiran greindist á Vattarnesi, hvað þá í Berufirði. Ekki er ljóst hvernig veiran hefur dreifst um Austfirði.

Gísli segir líklegast að hún hafi borist með eldisbúnaði eða sláturskipum, jafnvel áður en hún fannst fyrst í nóvember. Það séu þó aðeins getgátur. Í Kanada hafi orðið vart við tengsl milli síldartorfa sem komi inn á firði og smita. Síldin veikist aldrei heldur getur borið veiruna í eldislax án þess að smitast sjálf.

Í þann flokk fellur einnig villtur lax. Hann getur borið veiruna en veikist ekki sjálfur af blóðþorra. Villtum laxastofnum á Austfjörðum á því ekki að vera hætta búin af veirunum nú, eins og Gísli ítrekar að margoft hafi verið bent á.

Blóðþorri hefur nú fundist í tveimur af þremur fjörðum á Austurlandi þar sem eldi er stundað, aðeins Fáskrúðsfjörður er enn undanskilinn. Gísli segir að vel verði fylgst með þróun mála þar, sem og þeim stöðvum sem eftir eru í Berufirði.