Vafasamt að sumum sveitarfélögum sé gert að réttlæta sinn tilverurétt
„Ég veit satt best að segja ekki hvaða vegferð stjórnvöld eru á í þessum sameiningarmálum og ekki viss hvort þau vita það sjálf,“ segir Helgi Gíslason, sveitarstjóri Fljótsdalshrepps.
Innviðaráðuneytið vinnur nú úr þeim umsögnum og ábendingum sem fram komu vegna þeirrar stefnu stjórnvalda að styrkja sveitarfélögin með stækkun þeirra og þannig tryggja að hvert og eitt sé vel í stakk búið til að veita íbúum sínum jöfn réttindi og þjónustu og hafi burði til að takast á við framtíðaráskoranir eins og það er orðað.
Um miðjan mars voru birt drög að leiðbeiningum og ramma að áliti sveitarfélaga með undir 250 íbúa um stöðu þeirra og getu til að sinna lögbundnum verkefnum en Fljótsdalshreppur er eitt þeirra sveitarfélaga sem er langt undir því marki. Á samráðsgátt stjórnvalda gafst kostur á umsögnum og bárust þrettán slíkar. Allar umsagnirnar frá smærri sveitarfélögum eru afar neikvæðar í garð þessara hugmynda og Fljótsdalshreppur þar á meðal.
Helgi segir að verið sé að fara fram á að sveitarfélögin geri ítarlega úttekt á vel yfir hundrað mismunandi atriðum í rekstrinum og kynni fyrir íbúum sínum. Ráðuneytið ætli svo að nýta sér úttektina við stefnumótun og ákvarðanatöku í framtíðinni.
„Þetta er bæði yfirgripsmikið og tímafrekt að gera og það liggur við að það þurfi að setja daglegan rekstur á pásu á meðan,“ segir Helgi. Ríkið hafi ekki sýnt fram á með neinum hætti að smærri sveitarfélög landsins ráði ekki við lögskipuð verkefni sín fyrir utan þá staðreynd að vegið sé að sjálfsákvörðunarrétti og jafnaðarreglu sveitarfélaganna.
Helgi bendir einnig á þá staðreynd að það séu yfirleitt ekki minnstu sveitarfélögin sem er vandamálið. „Sé bara litið yfir töfluna yfir skuldsettustu sveitarfélögin í landinu eru þar á toppnum yfirleitt millistóru sveitarfélögin. Ekki þau minnstu og ekki þau stærstu. Þá má því alveg spyrja hvort þau ráði við sín lögbundnu verkefni.“
Helgi hefur sjálfur tekið þátt í sameiningarverkefnum áður og að auki kynnt sér hvernig þessum málum er háttað bæði í Noregi og Finnlandi. Í hvorugu þeirra landa eru sérstök ákvæði um lágmarksstærð sveitarfélaga.