Vafasamt fyrir flugöryggi að bíða með framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 06. nóv 2023 11:33 • Uppfært 06. nóv 2023 14:22
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi segir vonbrigði að ekki sé hægt áætlað að fara fyrr í framkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll en fyrirhugað er í fyrirliggjandi drögum að samgönguáætlun, þrátt fyrir að íslenskir flugmenn telji um brýnt öryggismál að ræða.
Rætt var um stöðu flugvallarins við fyrstu umræðu um samgönguáætlun 2024-38 nýverið auk þess sem Berglind Harpa Svavarsdóttir, sem fyrir áramót situr sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, ræddi stöðuna í liðum störf þingsins nýverið.
Þar vitnaði hún til þess að þótt uppbygging á Egilsstaðaflugvelli væri skilgreind í forgangi varaflugvalla í flugstefnu frá árinu 2019 þá hefði uppbyggingin dregist. Samkvæmt nýrri samgönguáætlun verður ekki byrjað á flughlaði og akbraut við völlinn fyrr en 2026 með þunga framkvæmdanna á árunum 2029-33 og lokum 2034-38.
Sveittir í biðflugi fyrir austan
Berglind Harpa sagði að henni hefðu borist skeyti frá flugstjórum hjá Icelandair þar sem þeir lýstu því að ófremdarástand hafi „hvað eftir annað“ myndast þegar Keflavíkurvöllur lokast óvænt. Þá sitji þeir „sveittir í biðflugi fyrir austan“ því ekki er hægt að keyra flugvélar beint út af flugbrautinni eftir lendingu.
Flugstjórarnir segja Íslendinga hafa sloppið með skrekkinn vegna frumstæðra innviða á landinu og að flestir þingmenn sýni flugöryggismálum áhugaleysi. Berglind Harpa hvatti umhverfis- og samgöngunefnd, sem hefur áætlunina nú til meðferðar, til að endurskoða forgangsröðun og fjármagn til uppbyggingar varaflugvalla með flugöryggi og hagsmuni atvinnulífs í huga.
Varaflugvallagjaldið breytir stöðunni
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, sagði þegar hann fylgdi samgönguáætlun úr hlaði á Alþingi að mesta breytingin sem varðaði fjármögnun samgönguáætlunar væri upptaka varaflugvallargjalds sem Alþingi samþykkti í byrjun sumars að leggja á.
Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, sagðist telja hægt að komast fyrr í framkvæmdir á Egilsstöðum fyrir varaflugvallargjaldið. Hann benti einnig á að aðflugsljós fyrir flugvellina á Egilsstöðum og Akureyri væru ekki á dagskrá fyrr en á öðru tímabili, 2029-33 þótt þau séu forgangsmál fyrir flugöryggi. Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokks í Norðausturkjördæmi, minnti á að málið væri ekki bara á herðum ríkisins heldur þyrfti að klára skipulagsmál og samninga við landeigendur.
Flugstöðin í Reykjavík í einkaframkvæmd?
Vilhjálmur Árnason, annar formaður umhverfis- og samgöngunefndar, ræddi ekki Egilsstaðaflugvöll heldur áformaða uppbyggingu flugstöðvarinnar í Reykjavík. Í endurbyggingu hennar er áætlaður 1,7 milljarðar á næstu þremur árum. Hann sagðist fagna framkvæmdinni en sagði miður að ríkið stæði í henni því trúlega væri hægt að fá fasteignafélög til að sjá um hana og reka.