Vakta útbreiðslu lúpínu á Austurlandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. ágú 2023 15:59 • Uppfært 17. ágú 2023 15:38
Náttúrustofa Austurlands hefur frá árinu 2020 mælt gróðurframvindu lúpínu á fimm stöðum á Austurlandi. Niðurstöðurnar nýtast til að kanna hegðun plöntunnar og kortleggja hvernig hægt sé að halda henni frá svæðum þar sem hún telst óæskileg.
Staðirnir sem voru valdir voru Sleðbrjótsmelar í Jökulsárhlíð, Eyjólfsstaðir skammt frá Egilsstöðum, Buðlungavellir innan við Hallormsstað og tiltekin svæði í Norðfirði- og Eskifirði. Þeir tveir síðarnefndu flokkast undir svokölluð hafræn svæði þar sem úrkoma er almennt yfir meðallagi, en þrjú hin fyrrnefndu landræn svæði þar sem þurrkar eru tíðari.
Almennt eru vaxtarskilyrði lúpínu hér á landi hvað bestar á úrkomusömum stöðum á Suðurlandi og á öðrum hafrænum svæðum. Þar sem úrkoma er mikil, nær þykkt mosalag sums staðar að myndast undir lúpínunni, stundum ásamt miklum grasvexti, sem veldur því að lúpínan nær ekki að endurnýja sig með fræi og tekur að hörfa eftir 20–30 ár.
Þar sem þessi þykki gróðursvörður nær hins vegar ekki að myndast undir lúpínunni, eins og víða á Norðurlandi þar sem úrkoma er minni, viðhaldast skilyrði fyrir endurnýjun lúpínu og hún getur því lifað afar lengi í landinu.
Líkist skilyrðunum á Norðurlandi
Lúpínan hefur sem sagt verið rannsökuð í öðrum landshlutum en nú er verið að kanna hvernig hún hegðar sér eystra. Fyrstu niðurstöður vöktunarinnar liggja fyrir þótt lengi tíma, 10-20 ár, þurfi til að fá áreiðanlegar niðurstöður. Svæðin sem Guðrún valdi síðasta sumar voru vissulega ólík, en eiga það sameiginlegt að gróðurframvinda þeirra var svipuð á upphafsárum.
„Lúpína jók þekju sína hratt fyrstu 10–15 árin og varð ríkjandi á meðan annar gróður hörfaði. Fjöldi og fjölbreytni æðplantna minnkaði með aukinni þekju lúpínu. Eftir því sem á leið hélt lúpína fullri þekju í sumum tilvikum en hörfaði í öðrum.
Landslag virtist þar skipta máli því lúpína hörfaði helst af melkollum og skildi þar eftir sig fjölbreyttan en rýran gróður. Í nokkrum tilvikum fundust skógarkerfill og ætihvönn í elsta hluta breiða og lúpína vék með aukinni þekju þeirra.
Almennt var lítið um mosa og grös í lúpínubreiðum, jafnvel á úrkomusömum svæðum, en þar sem úrkoma var hvað mest sáust vísbendingar um aukna mosa- og grasþekju í eldri hlutum breiða. Almennt bentu niðurstöður þó til þess að lúpínubreiður geti orðið langlífar, líkt og á mólendissvæðum norðanlands.“
Hopar helst fyrir enn ágengari tegundum
Guðrún segir erfitt að berjast gegn lúpínunni þar sem hún hafi myndað stórar breiður. Helst láti hún í minni pokann gegn enn ágengari tegundum á borð við skógarkerfil.
„Þess vegna er mikilvægt að forgangsraða aðgerðum og svæðum sem við viljum halda lúpínunni frá. Þar sem útbreiðslan er ekki mikil og enn gerlegt að stöðva hana alveg skiptir máli að hafa hraðar hendur, í stað þess að bíða þangað til verkefnið er orðið óyfirstíganlegt.
Síðan eru önnur svæði þar sem útbreiðslan er kannski nú þegar mikil en við viljum vernda ákveðin svæði, þar er mikilvægt að skilgreina útlínur þessara svæða og hafa þær í forgangi við skipulagningu sláttar. “
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.