Valdimar O. ráðinn sveitarstjóri á Vopnafirði
Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps samþykkti á fundi sínum í gær að ráða Valdimar O. Hermannsson sem sveitarstjóra út kjörtímabilið. Valdimar hefur starfað sem verkefnastjóri hjá sveitarfélaginu síðan í byrjun apríl.Alls sóttu 17 einstaklingar um starfið en tveir drógu umsóknirnar svo að segja strax til baka. Samkvæmt tilkynningu sveitarfélagsins voru fjórir einstaklingar boðaðir við viðtöl. Attentus vann ráðningarferlið með hreppsnefnd.
Valdimar var í tólf ár í bæjarstjórn Fjarðabyggðar, þar af sex ár í bæjarráði. Á þeim tíma gegndi hann fjölda trúnaðarstarfa innan fjórðungsins, var formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og fyrstu formaður Austurbrúar ásamt því að verða formaður Heilbrigðisnefndar Austurlands og Náttúrustofu Austurlands.
Hann er markaðsfræðingur að mennt en hefur einnig stundað fjölbreytt nám í verkefnastjórn, leiðtogaþjálfun, alþjóðaviðskiptum, stjórnun og markaðssetningum, bæði hérlendis og erlendis.
Hann starfaði í um áratug sem rekstrarstjóri sjúkrahússins í Neskaupstað og einnig sem innkaupastjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Hann var sveitarstjóri Blönduósbæjar 2018-22 og síðan tímabundið staðgengill sveitarstjóra Húnabyggðar. Hann var í lok mars ráðinn tímabundið sem verkefnastjóri hreppsnefndar Vopnafjarðarhrepps til tveggja mánaða.
Eiginkona hans er Vilborg Elva Jónsdóttir, skurðhjúkrunarfræðingur á Landsspítalanum. Þau eiga alls fjögur uppkomin börn.